Tíska og hönnun

Drífu Líftóru þótti fyndið að hafa rím í titli sýningarinnar Nykursykur

Elísabet Hanna skrifar
Drífa á þrykkverkstæði sínu.
Drífa á þrykkverkstæði sínu. Vísir

Fata- og textílhönnuðurinn Drífa Líftóra sýnir á HönnunarMars nýju handþrykktu fatalínuna sína. Línan nefnist Nykursykur og er til sýnis í Gröndalshúsi. Línan er litrík og hefur vísanir í íslenskar þjóðsagnir og þjóðtrú.

Drífa sem hönnuður

Hönnuðurinn Drífa Líftóra útskrifaðist með BA próf í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2014, vann sem starfsnemi í London og hélt svo til Parísar í meistaranám. Hún útskrifaðist með MA gráðu frá Paris College of Art vorið 2017. Drífa hefur einnig lokið diplómanámi við textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík.

Gunnlöð Jóna.

Spuni

Drífa Líftóra opnaði sýningu sína með sérstökum viðburði í gær þar sem dansarar „dönsuðu línuna“ við lifandi hörputónlist. Bæði dansinn og tónlistin voru spuni sem fundið var upp á staðnum. Tilfinningin fyrir undirdjúpunum kom fram í hreyfingum dansaranna sem endurspeglaði þema línunnar.

Gunnlöð Jóna.

Blóðþyrstir nykrar

Drífa segir mynstrin innihalda blóðþyrsta nykra sem svamla um í vatni ásamt bruddum beinum fórnarlamba sinna og leika þeir aðalhlutverkið í innblæstri línunnar. Samkvæmt Drífu er nykurinn í öllum sínum óhugnaði heiðraður í þessari nýju línu. Drífa segir að í undirdjúpum vatnsins megi finna leifar beina hinna ýmsu kvikinda sem nykurinn hefur dregið niður með sér og étið. 

Hún segir sniðin hafa verið hönnuð til þess að mynstrin fái að njóta sín en þau sækja þó innblástur í matrósabúninga og einnig hvernig klæði hreyfist í vatni. Litirnir í línunni vísa að sama skapi í blóð sem blandast vatni sem og litadýrð bertálkna sem hún telur kunna að leynast á botni polla þar sem nykurinn heldur sig.

Gunnlöð Jóna.

Línan byggir á sömu hugmyndafræði og síðasta lína Drífu Líftóru var þar sem mynsturgradering kemur við sögu. Í því felst að öll mynstur línunnar saman en geta einnig staðið ein og sér. 

Nykursykur

Nafnið Nykursykur valdi Drífa Líftóra á línuna sína í húmorískri andstöðu við innblásturinn. Drífa gefur sér að nykurinn sé hræðilega illur og blóðþyrstur og telur því að þess vegna hugsi maður ekki um eitthvað sætt líkt og sykur þegar maður heyri það nefnt. Auk þess þótti hönnuðinum fyndið að hafa rím í titli sýningarinnar.

Gunnlöð Jóna.

HönnunarMars 2022 fer fram 4. til 8. maí. Alla dagskránna má finna á vef hátíðarinnar

Frítt er inn á alla viðburði fyrir utan DesignTalks ráðstefnuna í Hörpu. HönnunarMars er opinn öllum og dagskráin er fjölbreytt svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  

Hér má finna alla okkar umfjöllun um HönnunarMars 2022


Tengdar fréttir

#íslenskflík: Saga 66°Norður stöðugur innblástur

Rakel Sólrós Jóhannsdóttir er partur af hönnunarteymi 66°Norður og er annar viðmælandinn í #Íslenskflík sem er verkefni Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem hér er að finna.

Sjáið tvöfalt og fjórfalt í verkinu

Hönnuðurinn Sól Hansdóttir og ljósmyndarinn Anna Maggý eru með sýningu í Ásmundarsal yfir Hönnunarmars þar sem gestir geta séð tvöfalt og fjórfalt í videóverki.

„Af hverju á íslenska krónan ekki sitt eigið tákn?“

Í gær fór fram formleg opnun sýningarinnar „Tákn fyrir íslensku krónuna“ í Grósku hugmyndahúsi. Hún er afrakstur samkeppni Félags íslenskra teiknara sem haldin var í tilefni HönnunarMars með stuðningi Seðlabanka Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.