Íslenski boltinn

Komin 26 ár síðan leik­maður byrjaði Ís­lands­mót betur en Ísak Snær í ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Snær hefur verið frábær í upphafi móts.
Ísak Snær hefur verið frábær í upphafi móts. Vísir/Hulda Margrét

Ísak Snær Þorvaldsson hefur farið lygilega vel af stað með Breiðablik í Bestu deild karla. Þegar fjórar umferðir eru búnar hefur hann skorað sex mörk. Fara þarf 26 ár aftur í tímann til að finna mann sem skoraði meira eftir jafn margar umferðir og Ísak Snær í ár.

Ísak Snær gekk í raðir Breiðabliks í vetur eftir að hafa blómstrað síðari hluta síðasta tímabils hjá ÍA. Þessi ungi leikmaður hefur verið að spila mun framar með Blikum en oft áður og hefur mörkunum rignt. Hann skoraði tvö mörk í fyrstu umferð gegn Keflavík, tvö gegn FH í þriðju umferð og tvö gegn ÍA í fjórðu umferðinni í gær.

Þá lagði hann einnig upp sigurmark Breiðabliks í 1-0 útisigrinum á KR í annarri umferð.

Á íþróttavef mbl.is kemur fram að fara þurfi 26 ár aftur í tímann til að finna leikmann sem hóf Íslandsmótið í efstu deild betur en Ísak Snær hefur gert í ár. Vorið 1996 byrjaði Guðmundur Benediktsson nefnilega á því að skora sjö mörk í fyrstu fjórum leikjum KR.

Á þessari öld hefur aðeins einn leikmaður byrjað tímabil jafn vel og Ísak Snær. Það gerði Hilmar Árni Halldórsson með Stjörnunni vorið 2018. Hilmar Árni endaði á að skora 16 mörk það sumar í 22 leikjum er Stjarnan endaði í 3. sæti deildarinnar.

Mögulega sættir Ísak Snær sig við 16 marak sumar en það er ljóst að Blikar sætta sig við ekkert annað en Íslandsmeistaratitilinn.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×