Íslenski boltinn

Dómarinn klikkaði á eðlisfræði 101 að mati Arnars

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnar Bergmann Gunnlaugsson sagði Þorvald Árnason hafa átt slæman dag en það geti gerst á bestu bæjum.  
Arnar Bergmann Gunnlaugsson sagði Þorvald Árnason hafa átt slæman dag en það geti gerst á bestu bæjum.   Vísir/Hulda Margrét

Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, hafði sitthvað út á dómgæsluna í leik lærisveina sinna gegn Leikni í Bestu-deild karla í fótbolta að setja að leik loknum i kvöld. Liðin skildu jöfn í markalausum leik. 

„Það var erfitt að spila fótbolta, við getum orðað það þannig. Við reyndum, ég var ánægður með frammistöðu okkar manna. Við reyndum og reyndum og hefðum svona á venjulegum degi getað skorað 2-3 mörk og höfðum fullan control á leiknum en inn vildi boltinn ekki.“ Sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga eftir leik.

Arnar var ósammála dómgæslu leiksins og honum fannst að sínur menn hefðu átt að uppskera að minnsta kosti eina vítaspyrnu. „Það voru allavega tvö af þessum fjórum atriðum sem manni fannst eins og, ef maður væri mjög skynsamur maður þá kæmi ekkert annað til greina. Sérstaklega þarna þegar Niko var tekinn niður í fyrri hálfleik.

Af því að Niko sparkar boltanum soldið langt í burtu. Miðað við mína eðlisfræðikunnáttu í grunnskóla, ef að boltinn fer svona í áttina framhjá markinu þá er augljóslega markmaðurinn ekki að snerta boltann. Þannig að það er bara eðlisfræði 101.“

Hann ætlar þó ekki að erfa þessi mistök við dómarana. „Þetta er bara hluti af leiknum. Dómarar gera mistök og við gerum mistök, allir gera mistök. Mér finnst dómarar vera búnir að dæma mjög vel það sem af er af móti. Látið leiki ganga mjög hratt og örugglega en mér fannst þeir eiga mjög off dag í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×