Fótbolti

Sveindís verðlaunuð með nýjum samningi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir ásamt Ralf Kellermann, íþróttastjóra Wolfsburg, þegar hún skrifaði undir nýja samninginn við félagið.
Sveindís Jane Jónsdóttir ásamt Ralf Kellermann, íþróttastjóra Wolfsburg, þegar hún skrifaði undir nýja samninginn við félagið. wolfsburg

Ekki fer á milli mála að forráðamenn Wolfsburg séu ánægðir með íslensku landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur því hún hefur skrifað undir nýjan samning við félagið.

Sveindís skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar Wolfsburg tryggði sér þýska meistaratitilinn á sunnudaginn. Og í morgun var greint frá því að hún hefði framlengt samning sinn við Wolfsburg til 2025. Gamli samningurinn gilti til 2024.

Sveindís samdi við Wolfsburg síðla árs 2020 en var strax lánuð til Kristianstad og lék með liðinu í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Keflvíkingurinn sneri aftur til Wolfsburg fyrir seinni hluta þessa tímabils. Hún hefur leikið fjórtán leiki fyrir Wolfsburg í öllum keppnum, átta í þýsku úrvalsdeildinni, tvo í bikarkeppninni og fjóra í Meistaradeild Evrópu. Sem fyrr sagði er Wolfsburg búið að vinna þýska meistaratitilinn. Liðið er einnig komið í bikarúrslit og getur því unnið tvöfalt heima fyrir.

„Hjá Wolfsburg er ég í fullkomnu umhverfi til að halda áfram að bæta mig á næstu árum. Það er gaman að vinna með liðinu og þjálfurunum og utan vallar er allt gert til að þér líði vel,“ sagði Sveindís þegar hún skrifaði undir nýja samninginn.

Ralf Kellermann, íþróttastjóri Wolfsburg, er hæstánægður með Sveindísi og segir að frammistaða hennar á þessu tímabili hafi verið framar vonum.

„Ef þú horfir í það að Sveindís hefur aldrei spilað í algjörri toppdeild er mjög óvænt hversu mikið hún hefur bætt sig undanfarnar vikur og mánuði. Það var sérstaklega vel af sér vikið hvernig hún sýndi hæfileika sína á stærsta sviðinu í Meistaradeildinni,“ sagði Kellermann.

„Ekki gleyma því að hún er bara tvítug og getur bætt sig enn frekar. Við erum í skýjunum með að Sveindís hafi framlengt samning sinn við Wolfsburg um eitt tímabil.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×