Skoðun

Virðing vinnandi fólks

Drífa Snædal skrifar

Barátta hinna vinnandi stétta hefur ekki bara snúist um atvinnu- og afkomuöryggi síðan í árdaga heldur ekki síður að geta borið höfuðið hátt, eiga rödd í samfélaginu og geta talað og tjáð sig án þess að hefnast fyrir það. Það er líka grundvöllur lýðræðisríkja og stöðugt hefur lagaramminn verið þéttur, nú síðast með vernd uppljóstrara. Að því sögðu er munur á málfrelsi og hatursorðræðu, munur sem flest eru með á hreinu. Sem vinnandi manneskja áttu að geta talað frjálst á kaffistofunni, viðrað þínar skoðanir og meira að segja haft áhuga og álit á störfum yfirmanna. Það er hluti af því að vera frjáls manneskja að geta talað frjálst án þess að hefnast fyrir það.

Í vikunni fékk ég þær upplýsingar að Icelandair krefði flugfreyjur og -þjóna um að nota app til að meta samstarfsfólk sitt, meðal annars frammistöðu, samskiptahæfileika og viðhorf til yfirmanna og fyrirtækis. Það er alls óvíst hvernig þessar upplýsingar verða notaðar, af hverju aðeins þessi stétt er útsett fyrir þessum reglum en ekki til dæmis flugmenn og hvernig þetta hefur áhrif á stöðu atvinnu- og afkomuöryggi. Eitt er þó vitað; að hvetja fólk til að vera stöðugt að meta samstarfsfélaga býr til tortryggni, gerir fólk vart um sig og ýtir undir þöggun. Flugfreyjur og -þjónar eru stétt sem reglulega er sagt upp störfum vegna samdráttar og nýlega var Icelandair dæmt fyrir brot á reglum um endurráðningar þar sem starfsreynsla var látin víkja. Það er því fullt tilefni fyrir starfsfólk að vera uggandi yfir eigin stöðu þegar því ber að klaga vinnufélaga eftir hverja vakt. Vinnufélaga sem það starfar ekki með á hverjum degi og þekkja oft lítið. Það er hvorki virðing fyrir málfrelsi né virðing vinnandi fólks sem ræður þarna ferðinni heldur eitthvað allt, allt annað.

Á morgun er kosið til sveitastjórna. Rétturinn til að kjósa er ekki sjálfsagður og lýðræði stendur höllum fæti víða í heiminum - nýtum réttinn okkar og skilum okkar atkvæði á morgun!

Góða helgi,

Drífa

Höfundur er forseti ASÍ




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×