Af 23 borgarfulltrúum í Reykjavík koma níu nýir inn eftir nóttina. Þeirra á meðal er Magnea Gná Jóhannsdóttir sem var 25 ára og 41 dags á kjördag, og sló þar með fyrra met Sönnu Magdalenu Mörtudóttur Sósíalista sem varð yngst allra til að ná kjöri í borgarstjórn fyrir fjórum árum.
„Ég er full þakklætis fyrir traustinu sem mér er sýnt og ég vona að ég geti sinnt málefnum ungs fólks sem ég náttúrulega brenn fyrir og geti gert gott fyrir unga fólkið okkar sem mun erfa ákvarðanir dagsins í dag,“ segir Magnea.
Hún viðurkennir að niðurstöðurnar hafi að sumu leyti komið henni á óvart. En fólk hafi greinilega verið tilbúið í breytingar. Og hún er til í slaginn.
„Ég er að fara í próf á fimmtudaginn, þannig að næstu dagar fara í smá próflestur, og svo bara spjall við fólkið sem er með mér núna í borgarstjórnarflokk og sjá hvort við finnum út úr þessu mögulega meirihlutasamstarfi.“
Stórmerkilegt að kona hafi ekki stjórnað áður
Á Ísafirði náði Ísafjarðarlistinn hreinum meirihluta með fimm mönnum - og í baráttusætinu sat bæjarfulltrúi með fjögur kjörtímabil að baki. Arna Lára Jónsdóttir er bæjarstjórnarefni flokksins og reiknar með að taka við starfinu innan tveggja vikna.
„Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa í gegnum tíðina farið saman þannig að við vissum að það yrði erfitt að komast upp á milli þeirra, þannig að við yrðum að treysta á okkur sjálf. Og það tókst,“ segir Arna Lára.
Hún er fyrsta konan til að verða bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar - og þykir tilhugsunin skemmtileg.
„Það er auðvitað 2022 og það er stórmerkilegt að það hafi ekki verið kona bæjarstjóri áður í Ísafjarðarbæ. En það er semsagt raunin og mér þykir það mikill heiður að ég fái að vera sú kona.“