Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, segir í samtali við Morgunblaðið að fóðurverð hafi hækkað verulega strax eftir innrás Rússa og að svipað sé upp á teningnum í öðrum aðföngum.
„Þá þyrfti kjúklingur í raun að hækka um 20 til 25 prósent út úr búð en fyrirtækin eru að mestu leyti að taka þetta á kassann. Við reynum að koma einhverjum verðhækkunum út en við þurfum einnig að sýna ábyrgð,“ segir Guðmundur.
Sigurður Máni Helgason, framkvæmdastjóri Brauð og co, segir næsta vetur einkennast af gríðarlegri óvissu.
„Maður gerir sér grein fyrir því að þegar einn markaður lokast þá leita menn á aðra markaði og því geta fylgt verðhækkanir,“ segir Sigurður við Morgunblaðið.
Úkraína er einn stærsti framleiðandi sólblómaolíu heims og hafa margar þjóðir fundið fyrir skorti á henni. Bretar leyfa íbúum einungis að kaupa olíuna í litlu magni í einu.