Lífið

Andrew Fletcher látinn sextugur að aldri

Eiður Þór Árnason skrifar
Andrew Fletcher spilar með Depeche Mode í Mílanó á Ítalíu árið 2017.
Andrew Fletcher spilar með Depeche Mode í Mílanó á Ítalíu árið 2017. Getty/Sergione Infuso

Andrew Fletcher, hljómborðsleikari og stofnmeðlimur bresku raftónlistarsveitarinnar Depeche Mode er látinn. Hljómsveitin tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum í gær en Fletcher var sextíu ára að aldri.

„Við erum slegin og finnum fyrir yfirþyrmandi sorg vegna ótímabærs fráfalls okkar kæra vinar, fjölskyldumeðlims og hljómsveitarmeðlims Andy ‚Fletch‘ Fletcher,“ segir í yfirlýsingu sem birt var á Twitter í gær.

Hljómsveitin Depeche Mode var stofnuð í borginni Basildon í Essex seint á áttunda áratug síðustu aldar og hefur hún átt sautján breiðskífur í efstu tíu sætum breska vinsældalistans. Þá hafa listamennirnir náð miklum vinsældum erlendis með lögum á borð við Enjoy The Silence, Personal Jesus og Just Can’t Get Enough.

Fletcher fæddist árið 1961 í Nottingham og flutti til Basildon þar sem hann stofnaði sveitina Composition Of Sound seint á áttunda áratugnum ásamt Martin Gore and Vince Clarke. 

Þegar söngvarinn Dave Gahan bættist í hópinn breyttu þeir nafni hljómsveitarinnar í Depeche Mode og fjórmenningarnir gáfu út röð slagara í byrjun níunda áratugarins sem náðu hátt á vinsældalistum. Fletcher skilur eftir sig eiginkonu sína Grainne og tvö börn, Megan og Joe. 

Breska stórsveitin Pet Shop Boys minntust Fletcher í gær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.