Mótmælin hefjast klukkan korter yfir fjögur á Austurvelli og hefur fjöldi fólks boðað komu sína á samfélagsmiðlum. Sema Erla Serdar, formaður hjálparstamtakanna Solaris, er á meðal skipuleggjenda. Hún segir málstað fólksins njóta meðbyrs í samfélaginu og á von á því að stór hópur láti sjá sig. Krafa mótmælenda sé að fallið verði frá brottvísununum í heild sinni.
„Fólk er almennt ekki sátt við þá ákvörðun stjórnvalda að vísa svona stórum hópi, fordæmalausri stærð af hópi, úr landi á einu bretti. Þetta er framkvæmd sem í raun hefði aldrei átt að koma til tals.“
Fólki sé misboðið hvernig komið sé fram við fólk á flótta, og stjórnvöld hafi það í hendi sér að leyfa fólkinu að vera.
„Það eru nú þegar til fordæmi fyrir því að það sé gripið inn í einstök mál. Það eina sem þarf til þess að hverfa frá þessari ákvörðun er pólitískur vilji, sem því miður virðist ekki vera til staðar,“ segir Sema.
Hún óttast að verið sé að undirbúa brottvísun fólksins með hraði.
„Þannig að við hvetjum sem flesta til þess að mæta og láta fólkið líka vita, ef við höfum ekki náð til þeirra að koma og vera með okkur í dag. Þannig að við getum stutt hvort annað og sýnt samstöðu með hópnum.“
Upphaflega stóð til að vísa hátt í þrjú hundruð manns úr landi, en nú er fjöldi þeirra nær tvö hundruð.
Það kannski fyrst og fremst sýnir okkur að ef þau vilja fækka í hópnum, ef þau vilja ekki brottvísa fólkinu þá virðist vera mjög auðvelt að gera það ekki.“