Innherji

Fjórföld eftirspurn í útboði Ölgerðarinnar og félagið metið á 28 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Ráðgert er að viðskipti með hlutabréf Ölgerðarinnar í Kauphöllinni muni hefjast fimmtudaginn 9. júní.
Ráðgert er að viðskipti með hlutabréf Ölgerðarinnar í Kauphöllinni muni hefjast fimmtudaginn 9. júní. VÍSIR/VILHELM

Alls bárust áskriftir fyrir rúmlega 32 milljarða króna í almennu hlutafjárútboði Ölgerðarinnar, sem lauk í gær, sem samsvarar rúmlega fjórfaldri umfram eftirspurn. Seldur var 29,5 prósenta hlutur í félaginu fyrir samtals 7,9 milljarða króna.

Í tilboðsbók B, þar sem lágmarksfjárhæð tilboða var 20 milljónir króna og umfram eftirspurnin reyndist vera fimmföld, var endanlegt útboðsgengi 10,03 krónur á hlut. Miðað við það gengi er allt hlutafé Ölgerðarinnar, sem er stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, metið á meira en 28 milljarða króna.

Í tilboðsbók A, sem var fyrir almenna fjárfesta, var þreföld umfram eftirspurn og endanlegt útboðsgengi var 8,9 krónur á hlut. Samtals bárust um 6.600 áskriftir í útboðinu.

Ráðgert er að viðskipti með hlutabréf Ölgerðarinnar í Kauphöllinni muni hefjast fimmtudaginn 9. júní en ráðgjafi félagsins við skráninguna og útboðið er fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka.

Núverandi hluthafar, að undanskildum lykilstarfsmönnum, selja hlutfallslega jafn mikið af bréfum í félaginu í útboðinu sem stóð yfir dagana 23. til 27. maí.

Líf­eyr­is­sjóðir eiga nú um 37 prósenta hlut, í gegnum framtakssjóðina Horn III og Akur fjárfestingar, einka­fjár­fest­ar um 25 prósent en trygg­inga­fé­lög, bank­ar og verðbréfa­sjóðir um 16 prósent hlut. Þá eiga þeir Andri Þór Guðmunds­son, for­stjóri Ölgerðar­inn­ar, og Októ Ein­ars­son, stjórn­ar­formaður Ölgerðar­inn­ar, sam­an 16 prósenta hlut í gegnum OA eignarhaldsfélag.

Markaðshlutdeild félagsins er um 52 prósent á gosdrykkjamarkaði og um 66 prósent með kolsýrt vatn.

Ölgerðin á mörg af elstu og þekktustu vörumerkjum landsins á sínu sviði, til dæmis Egils Appelsín, Kristal, Egils Gull og Egils Malt, en tæplega helmingur af starfsemi félagsins er framleiðsla á eigin vörumerkjum. Auk þess er Ölgerðin með leyfi til þess að framleiða og selja vörur undir þekktum vörumerkjum frá fyrirtækjum Tuborg, Carlsberg Group og Pepsico.

Heildartekjur Ölgerðarinnar á síðasta fjárhagsári námu tæplega 32 milljörðum króna og EBITDA hagnaður félagsins var nærri 3,3 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×