Íslenski boltinn

Upp­gjör Stúkunnar: Leik­maður um­ferðarinnar í Fram og mark um­ferðarinnar kom í Garða­bæ

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur Magnússon hefur farið vel af stað með Fram í sumar. Hann skoraði tvívegis í sigri liðsins á Val um helgina og er leikmaður umferðarinnar að mati Stúkunnar.
Guðmundur Magnússon hefur farið vel af stað með Fram í sumar. Hann skoraði tvívegis í sigri liðsins á Val um helgina og er leikmaður umferðarinnar að mati Stúkunnar. Vísir/Vilhelm

Áttunda umferð Bestu deildar karla í fótbolta fór fram á sunnudag. Guðmundur Benediktsson gerði umferðina upp í Stúkunni að leikjum loknum. Farið var yfir lið umferðarinnar, leikmann og mark umferðarinnar.

Lið umferðarinnar

Guðjón Orri Sigurjónsson fær traustið í markinu eftir frábæra frammistöðu á Samsung-vellinum í Garðabæ þar sem ÍBV tapaði naumlega 0-1.

Óli Valur Ómarsson er hægri bakvörður en hann skoraði sigurmarkið í leik Stjörnunnar og ÍBV. Aron Kristófer Lárusson er í vinstri bakverðinum en hann átti frábæran leik í 3-2 sigri KR á FH í Kaplakrika.

Í miðverðinum eru þeir Dani Hatakka (Keflavík) og Oliver Ekroth (Víkingur). Hatakka skoraði í 2-0 sigri Keflavíkur á Akranesi og Ekroth var flottur er Íslands- og bikarmeistarar Víkings unnu nauman 2-1 sigur á KA.

Á miðjunni eru Daníel Laxdal (Stjarnan), Ivan Kaliuzhnyi (Keflavík) og Ágúst Eðvald Hlynsson (Valur) en sá síðastnefndi skoraði bæði mörk Vals í 3-2 tapi liðsins gegn Fram.

Fremstu þrír eru svo Guðmundur Magnússon (Fram), Ísak Snær Þorvaldsson (Breiðablik) og Kjartan Henry Finnbogason (KR) en allir skoruðu tvö mörk í sigrum sinna liða í 8. umferð Bestu deildarinnar.

Leikmaður umferðarinnar

Guðmundur Magnússon, framherji Fram, var valinn leikmaður umferðarinnar en hann hefur verið iðinn við kolann til þessa á leiktíðinni. Hann skoraði tvívegis í óvæntum 3-2 sigri Fram á nágrönnum sínum í Val og er nú kominn með sex mörk í Bestu deild karla.

Guðmundur kann greinilega vel við sig í Safamýrinni en þetta var síðasti leikur Fram þar í sumar. Spurning hvort hann haldi áfram að raða inn mörkum í Úlfarsárdal en þar mun Fram nú leika heimaleiki sína.

„Hann var frábær í þessum leik, ekki bara mörkin sem hann skoraði heldur er hann gríðarlega sterkur og hann er búinn að koma sjálfur og segja að hann sé í betra ástandi en nokkurn tímann fyrr og maður sér það alveg. Hann getur hlaupið meira á bakvið varnir en hann heldur boltanum ofboðslega vel,“ sagði Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stúkunnar um Guðmund.

Mark umferðarinnar

Það kom í raun bara eitt til greina. Stórglæsilegt mark Óla Vals gegn ÍBV. Markið ásamt umræðu Stúkunnar um lið, leikmann og mark umferðarinnar má sjá hér að neðan.

Klippa: Stúkan: Uppgjör 8. umferðar

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: FH - KR 2-3 | KR hafði betur í stórveldaslagnum

KR hafði betur, 3-2, þegar Vesturbæjarliðið sótti FH heim á Kaplakrikavöll í áttundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Liðin þurftu bæði sárlega á stigum að halda í þessum leik til þess að halda í við topplið deildarinnar.

Umfjöllun og viðtöl: ÍA - Keflavík 0-2 | Sanngjarn sigur Keflvíkinga

Keflavík sótti mikilvæg þrjú stig þegar þeir mættu ÍA á Akranesi í dag þar sem að þeir fyrrnefndu unnu sannfærandi 0-2 sigur þar sem að Dani Hatakka og Kian Williams gerðu mörkin. Léleg spilamennska Skagamanna þar sem að þeir sáu aldrei til sólar og fjórði leikurinn í röð þar sem að þeim mistekst að skora mark né sækja stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×