Innlent

Leigu­bíl­stjórinn undrast upp­töku fimm­tíu ára gamals máls

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Heimir Már Pétursson skrifa
Bíllinn lenti á hjólunum niðri í fjöruborðinu.
Bíllinn lenti á hjólunum niðri í fjöruborðinu. Haukur Sig./Ljósmyndasafnið Ísafirði

Skýrslur voru ekki teknar af ökumanni og farþega í bíl, sem valt á Óshlíðarvegi árið 1973 með þeim afleiðingum að annar farþeginn lést, fyrr en tveimur og þremur mánuðum eftir slysið. Þetta kemur fram í gögnum lögreglu sem fréttastofa hefur undir höndum. Bílstjórinn segir það ekki standast, ekki hafi liðið nema nokkrir dagar þar til skýrsla hafi verið tekin af honum. 

Líkamsleifar Kristins Hauks Jóhannessonar, sem lést í bílslysi á Óshlíðarvegi 23. september 1973 nítján ára gamall, voru grafnar upp á föstudag af lögreglunni á Vestfjörðum að viðstöddum réttarmeinalækni og tveimur fulltrúum úr tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjölskylda mannsins hefur haft efasemdir um rannsókn málsins og óskaði eftir að rannsókn yrði tekin upp að nýju, sem var samþykkt með dómsúrskurði.

Fyrsta frétt af málinu birtist í dagblaðinu Vísi 24. september 1973 þar sem fram kom að bíllinn hafi farið út af Óshlíðarvegi í blindbeygju. Næsta frétt af málinu birtist daginn eftir í Morgunblaðinu þar sem fram kom að Kristinn hafi verið á dansleik í Hnífsdal þetta kvöld. 

Kristinn Haukur lá í aftursæti bílsins

Fram kemur í lögregluskýrslum um málið, sem fréttastofa hefur undir höndum, að Kristinn hafi farið af dansleiknum í Hnífsdal í einkasamkvæmi á Ísafirði að honum loknum ásamt þremur stúlkum. Upp úr klukkan fjögur um morguninn hafi þau, auk fjórðu stúlkunnar, farið úr samkvæminu og hitt fyrir leigubílstjóra, sem keyrði þau um Ísafjörð. 

Tvær stúlknanna hafi svo farið úr bílnum áður en haldið var til Bolungarvíkur, þar sem þriðja stúlkan átti heima. Þegar hún hafi verið komin heim til sín hafi Kristinn Haukur og fjórða stúlkan haldið aftur með leigubílnum til Ísafjarðar. Stúlkan sat í framsætinu en Kristinn Haukur lá í aftursætinu. 

Segist hafa misst stjórn eftir að eitt hjólið læstist

Höskuldur Guðmundsson, leigubílstjórinn fyrrverandi, segir í samtali við fréttastofu að stúlkan hafi verið vinkona hans og hann hafi verið hættur að aka gegn gjaldi þetta kvöld þegar hann hafi tekið hópinn upp í bílinn. Hann hafi aðeins ekið til Bolungarvíkur þar sem stúlkan sem þangað hafi þurft að komast hafi verið í vandræðum með að finna leigubíl. Kristinn Haukur hafi verið mjög drukkinn og fljótlega dáið áfengisdauða í aftursætinu. 

Höskuldur leigubílstjórinn segir að eitt hjólanna hafi læst.Haukur Sig./Ljósmyndasafnið Ísafirði

Fram kemur í lögregluskýrslunum að við blindbeygju á Óshlíðarvegi hafi komið rykkur á bílinn og ökumaðurinn misst á honum stjórn áður en bíllinn valt þrjátíu metra niður í flæðarmálið. Bílstjórinn sagði í skýrslutöku hjá lögreglu 23. nóvember 1973 að áður en bíllinn fór út af veginum hafi vinstra afturhjólið „neglt sig fast í bremsu“ og við það hafi hann misst stjórn á bílnum. Við rannsókn málsins var bifreiðaeftirlitsmaður fenginn til að skoða bílinn og sagði hann að stýrisliður hafi verið rofinn. Hann hafi ekkert fundið að hemlum bifreiðarinnar.

Höskuldur segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ekið hægt um Óshlíðarveginn því aðstæður hafi ekki, eins og alltaf í Óshlíð, verið góðar. Þegar hann hafi ýtt lauslega á bremsuna hafi annað hjólið á bílnum læst sig og bíllinn farið út af. Hann segir það oft hafa gerst í amerískum bílum, en bíllinn var úr verksmiðju Ford 1967. 

Töldu Kristinn hafa kastast út í veltunum

Þá segir í lögregluskýrslu að ekki hafi verið hægt að segja til um hversu margar veltur bíllinn fór niður hlíðina en virst hafi sem hann hafi fyrst runnið áfram á hjólunum niður bratta hlíðina og svo oltið. Í fréttum sem sagðar voru af málinu var misjafnlega sagt frá fallhæðinni, allt frá 17 metrum upp í 70 metra, en fram kemur í lögregluskýrslunni að fallhæðin hafi verið um þrjátíu metrar. 

Bíllinn lenti á hjólunum í flæðarmálinu og komust bæði ökumaður og stúlkan, sem sat í framsætinu, út úr bílnum af sjálfsdáðum. Þau sögðust í skýrslutöku hjá lögreglu hafa fundið til vasaljós í bílnum og leitað Kristins stuttlega en ekki fundið hann vegna náttmyrkurs. Þau hafi síðan gengið inn í Hnífsdal, um klukkutíma leið, þar sem þau gátu gert lögreglu viðvart. 

Ljósmynd af bílnum í fjörunni undir Óshlíðarvegi.Haukur Sig./Ljósmyndasafnið Ísafirði

Höskuldur segir að þegar hann og stúlkan hafi komist út úr bílnum hafi þau hvergi séð Kristinn. Hann hafi talið að Kristinn Haukur hafi kastast út úr bílnum í veltunum. Á þessum tíma hafi engir farsímar verið til staðar og enginn neyðarsími í Óshlíð og þau þurft að ganga inn í Hnífsdal til þess að hringja á lögreglu. Einn lögreglufulltrúi hafi komið, seint og um síðir.

Líkið farið að stirðna þegar lögreglan kom á slysstað

Þegar lögreglumaður kom þangað voru þau flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði en þeim fljótlega hleypt heim. Hvorugt þeirra hafði verið í bílbelti en sluppu bæði ómeidd. 

Þegar lögreglumaðurinn kom að slysstað fann hann Kristin látinn í hlíðinni miðri, um fimmtán metra fyrir ofan staðinn þar sem bíllinn hafði stöðvast. Lögreglumaðurinn, sem mætti fyrst á slysstað, segir í skýrslu að ljóst hafi verið að Kristinn væri látinn, en storknað blóð hafi verið í munni hans og hann haft mikið sár á höfði. Líkaminn hafi þar að auki verið farinn að stirðna. Læknanemi, sem hafði verið kallaður til, úrskurðaði Kristinn látinn á staðum.

Höskuldur segist í samtali við fréttastofu að enginn hafi haft samband við hann vegna málsins og honum þyki furðulegt að verið sé að taka það upp nú eins og um glæp sé að ræða. Eftir slysið hafi hann ekki stundað leigubílaakstur. Þá standist ekki að dregist hafi í marga mánuði að taka skýrslu af honum og stúlkunni, í hans minni geti það ekki verið nema nokkrir dagar.


Tengdar fréttir

Grófu upp líkamsleifar til að skoða fimmtíu ára mál

Líkamsleifar sem Lögreglan á Vestfjörðum gróf upp fyrir helgi eru af manni sem mun hafa farist í bílslysi á Óshlíðarvegi árið 1973. Hinn nítján ára gamli Kristinn Haukur Jóhannesson fannst látinn við bíl sem átti að hafa oltið niður af veginum en verið er að rannsaka hvort Kristinn hafi mögulega dáið með öðrum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×