Innlent

Vinabæirnir fylgjast að

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skrifað verður undir málefnasamninga á Akureyri og í Hafnarfirði í dag.
Skrifað verður undir málefnasamninga á Akureyri og í Hafnarfirði í dag. Vísir/Vilhelm

Málefnasamningar þeirra flokka sem munu mynda meirihluta í bæjarstjórnum vinabæjanna Hafnarfjarðar og Akureyrar verða undirritaðir í dag.

Í Hafnarfirði munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins formlega endurnýja meirihlutasamstarfs sitt frá síðasta kjörtímabili.

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins, munu hafa vistaskipti í stóli bæjarstjóra á miðju kjörtímabili.

Skrifað verður undir samninginn í Hellisgerði í Hafnarfirði klukkan 14 í dag.

Tókst í þriðju atrennu

Það sama verður upp á teningnum á Akureyri í dag, sem verið hefur vinabær Hafnarfjarðar frá árinu 1999.

Þar munu fulltrúar L-listans, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, undirrita málefnasamning um samstarf flokkanna. Undirritunin fer fram í Lystigarðinum á Akureyri klukkan 15. 

Flokkarnir tilkynntu í síðustu viku að þeir hefðu náð saman um myndun meirihluta. Áður höfðu tvær meirihlutaviðræður í bænum farið út um þúfur.

Reiknað er með að Ásthildur Sturludóttir, sem ráðin var sem bæjarstjóri árið 2018, verði áfram bæjarstjóri. Önnur skipting embætta liggur ekki fyrir.


Tengdar fréttir

BDSM úr sögunni á Akur­eyri

Samfylkingin hefur slitið meirihlutaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn, Framsókn og Miðflokkinn á Akureyri. Ástæðan er sögð vera mikill málefnalegur ágreiningur, meðal annars í velferðar- umhverfis- og skipulagsmálum.

Uppbygging vegna fólksfjölgunar í Hafnarfirði efst á blaði

Uppbygging vegna mikillar fyrirsjáanlegrar fjölgunar íbúa verður eitt aðalverkefni nýrrar bæjarstjórnar í Hafnarfirði að mati oddvita Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hafa náð samkomulagi um meirihlutasamstarf. Oddvitarnir munu hafa vistaskipti í stóli bæjarstjóra og formanns bæjarráðs á miðju kjörtímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×