Fótbolti

Ribéry mun spila til fer­tugs

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ribéry í leik með Salernitana í vetur. Hann hefur endurnýjað samning sinn þrátt fyrir að verða fertugur áður en næstu leiktíð lýkur.
Ribéry í leik með Salernitana í vetur. Hann hefur endurnýjað samning sinn þrátt fyrir að verða fertugur áður en næstu leiktíð lýkur. Giuseppe Maffia/Getty Images

Franck Ribéry, fyrrverandi landsliðsmaður Frakklands og leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern München, er enn í fulli fjöri þó hann nálgist fimmtugsaldurinn. Ribéry leikur í dag með Salernitana á Ítalíu og var að framlengja samning sinn við félagið.

Ribéry gerði garðinn frægan með Bayern þar sem hann lék frá 2007 til 2019. Þaðan fór hann til Fiorentina en á síðasta ári samdi hann við Salernitana sem voru þá nýliðar í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni.

Í samningi vængmannsins var klásúla sem gerði það að verkum að ef liðið myndi halda sæti sínu í deildinni yrði samningur Ribéry framlengdur um eitt ár. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst liðinu að halda sæti sínu þó það hefði aðeins nælt í 31 stig í 38 leikjum.

Nýr samningur því staðreynd fyrir leikmann sem verður fertugur í apríl á næsta ári. Ribéry verður því kominn á fimmtugsaldurinn þegar samningur hans loks rennur út. Hvort hann láti staðar numið þar eða haldi áfram verður einfaldlega að koma í ljós.

Hinn 39 ára gamli Ribéry hefur leikið í Frakklandi, Tyrklandi, Þýskalandi og nú Ítalíu. Hann var einkar sigursæll. Sérstaklega er hann lék með Bayern þar sem hann vann alls 23 titla, þar á meðal Meistaradeild Evrópu vorið 2013.

Þá lék hann alls 81 leik fyrir franska landsliðið og var meðal annars í liðinu sem fór alla leið í úrslit árið 2006.

Frá þessu var greint á franska miðlinum L'Equipe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×