Hákon Arnar gerði það gott með FC Kaupmannahöfn á nýafstöðnu tímabili. Eftir að glíma við meiðsli í upphafi móts kom Skagamaðurinn ungi sterkur inn á síðari hluta tímabilsins og var stór ástæða þess að liðið varð Danmerkurmeistari.
Hinn 19 ára gamli Hákon Arnar er mikils metinn í Kaupmannahöfn en önnur Íslendingalið virðast vera fylgjast með kappanum. Venezia mun leika í Serie B á Ítalíu á næstu leiktíð eftir að falla úr ítölsku úrvalsdeildinni á dögunum. Segja má að um Íslendinganýlendu sé að ræða en Arnór Sigurðsson lék með liðinu í vetur á láni frá CSKA Moskvu.
Þá eru Bjarki Steinn Bjarkason og Óttar Magnús Karlsson á mála hjá liðinu en þeir hafa báðir verið á láni að undanförnu. Bjarki Steinn í C-deildinni og Óttar Magnús í Bandaríkjunum.
Ef marka má staðarmiðla í Feneyjum væri Hákoni Arnari ætlað töluvert stærra hlutverki en þeim þremur Íslendingum sem nefndir eru hér að ofan. Honum er lýst sem fjölhæfum og tæknilega góðum leikmanni sem getur leyst flestar stöður framarlega á vellinum.
Hvort eitthvað verði af vistaskiptunum er alls óvíst en að öllum líkindum er Venezia ekki eina liðið sem íhugar að fá Skagamanninn öfluga í sínar raðir í sumar.