Erlent

Einn látinn og fleiri slasaðir eftir að bíl var ekið inn í hóp fólks í Ber­lín

Eiður Þór Árnason skrifar
Lík liggur á götu eftir að bifreið var ekið inn í mannfjölda á vinsælli verslunargötu.
Lík liggur á götu eftir að bifreið var ekið inn í mannfjölda á vinsælli verslunargötu. AP/Michael Sohn

Einn er látinn og minnst tólf aðrir slasaðir eftir að bifreið var ekið inn í hóp gangandi vegfarenda í Berlín í morgun. Samkvæmt lögreglu er óljóst á þessari stundu hvort um hafi verið að ræða viljaverk. Ökumaður grunaður um verknaðinn hefur verið handtekinn og er nú í gæsluvarðhaldi.

Fram kemur í tilkynningu að um sé að ræða 29 ára gamlan þýsk-armenskan mann sem búsettur er í Berlín. Var sá fyrst handsamaður af almennum borgurum áður en hann var færður í hendur lögreglu. Að sögn vitna reyndi hann fyrst að flýja af vettvangi.

Atvikið átti sér stað á Tauentzienstraße um klukkan 8:30 að íslenskum tíma, skammt frá við verslunargötunni Kurfuerstendamm og Minningarkirkju Vilhjálms keisara.

Breska ríkisútvarpið BBC vitnar í talsmann lögreglu sem segir að yfir tólf séu taldir slasaðir og þar af nokkrir alvarlega. Sky News hefur eftir slökkviliði að talan sé um þrjátíu og fimm séu með lífshættulega áverka.  

Lögregla hefur girt svæðið af.Getty/Fabian Sommer

Mikill fjöldi viðbragðsaðila eru á vettvangi. Atvikið átti sér stað nærri Breitscheidplatz þar sem þrettán létust árið 2016 þegar ökumaður keyrði vörubíl inn í mannfjölda á jólamarkaði. Árið 2019 létust fjórir í miðborg Berlínar þegar ökumaður sem fékk flogakast keyrði jepplingi upp á gangstétt. 

Thilo Cablitz, talsmaður lögreglunnar í Berlín, segir að ökumaðurinn hafi ekið á fólk sem stóð á götuhorni áður en hann færði sig aftur á veginn og endaði á því að keyra inn í verslunarglugga í næstu húsaröð. Hann bætir við að verið sé að yfirheyra manninn og reyna að fá úr því skorið hvort hann keyrði viljandi inn í mannfjöldann eða um slys hafi verið að ræða sem orsakaðist mögulega af heilsufarsvanda. 

Leikarinn John Barrowman lýsir aðstæðum á vettvangi á Twitter og segir að ökumaðurinn hafi ítrekað keyrt upp á göngustíg áður en hann keyrði í gegnum verslunargluggann og nam staðar. 

Ljósmyndir sýna gráa fólksbifreið sem hefur verið keyrt inn í verslun. Barrowman ræddi málið nánar í samtali við fréttamann BBC. 

Bifreiðin endaði inn í verslun. Ökumaður grunaður um verknaðinn hefur verið handtekinn.Ap/Michael Sohn
Atvikið átti sér stað nærri Minningarkirkju Vilhjálms keisara í vesturhluta Berlín. Ap/Michael Sohn
Minnst einn vegfarandi er látinn en óljóst er á þessari stundu hve margir eru slasaðir.Epa/FILIP SINGER
Mikill viðbúnaður er á vettvangi. Epa/FILIP SINGER

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 12:32. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×