Töluvert hefur gustað um íslenska landsliðið í þessum landsleikjaglugga. Nú síðast hefur frammistaða liðsins í 1-0 sigri á San Marínó á fimmtudag verið gagnrýnd víða. Bæði af fyrrverandi landsliðsmönnum sem sinna nú starfi sérfræðinga á Viaplay sem og á samfélagsmiðlinum Twitter.
Breiðablik, topplið Bestu deildar karla, bætist nú á listann yfir þá aðila sem eru ekki beint sáttir með, Arnar Þór Viðarsson, þjálfara íslenska landsliðsins ef marka má sérfræðinga Þungavigtarinnar. Þrír af leikmönnum liðsins -Damir Muminovic, Höskuldur Gunnlaugsson og Jason Daði Svanþórsson - voru kallaðir inn í hóp A-landsliðsins fyrir leikinn gegn San Marínó.
Í nýjasta þætti Þungavigtarinnar, sem er að þessu sinni opinn öllum, kemur fram að leikmennirnir sem um er ræðir hafi verið kallaðir inn í hópinn nánast um miðja nótt, félagið hafi ekki verið látið vita og þá er einum leikmanni sagt hafa verið lofaður meiri spiltíma en raun bar vitni.
„Breiðablik var ekki einu sinni látið vita. Þetta er svo mikill amatörismi að það var ekki einu sinni haft samband við félagið,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson meðal annars í þættinum.
Á endanum spilaði Jason Daði rúmlega 20 mínútur á meðan þeir Höskuldur og Damir komu inn af bekknum á 87. mínútu. Samkvæmt heimildum Þungavigtarinnar átti Damir að byrja leikinn en á endanum spilaði hann rétt tæplega fimm mínútur.
Jason Daði var að spila sinn fyrsta A-landsleik, Damir sinn annan landsleik og Höskuldur sinn fimmta leik.
Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki, staðfesti við Vísi í kvöld að skortur hafi verið á samskiptum KSÍ við félagið.