Grétari Rafni var sagt upp hjá Everton, ásamt félaga sínum Marcel Brands, sem var þar yfirmaður knattspyrnumála í desember. Grétar hafði unnið sem yfirnjósnari í Evrópu hjá Everton frá 2018 áður en hann varð næsti undirmaður Brands.
Hann mun nú hafa umsjón með frammistöðu leikmanna hjá Tottenham (e. performance director) þar sem hann vinnur náið með þjálfarateymi bæði aðalliðs og yngri liða auk þess að vinna með Fabio Paratici, sem er þar framkvæmdastjóri. Grétar yfirgefur því stöðu sína hjá KSÍ þar sem hann sinnti tímabundnu ráðgjafastarfi í vor og sumar.
Grétar lék með Bolton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni frá 2008 til 2012 en lék á sínum ferli erlendis einnig í Sviss, Hollandi og Tyrklandi. Hann spilaði með KS og ÍA hér heima auk þess að spila 46 landsleiki fyrir Íslands hönd milli 2002 og 2012.
Hann vann um skamma stund hjá AZ Alkmaar eftir að ferli hans lauk en var yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood Town í fjögur ár áður en hann fór til Everton.