Alvotech varð í dag eina íslenska fyrirtækið sem skráð er í NASDAQ kauphöllinni í New York. Skráningin tók gildi að loknum samruna við yfirtökufélagið Oaktree. Þá tóku innlendir og alþjóðlegir fjárfestar þátt í hlutafjáraukningu að andvirði um tuttugu og þriggja milljarða íslenskra króna króna á genginu 10 dollara á hlut eða sem samsvarar um eitt þúsund og þrjú hundruð krónum. Bandarískir fréttamiðlar gerðu skráningunni skil í dag.
Stefnt er að því að setja fyrirtækið á markað í íslensku kauphöllinni 23. júní. Tíu ár eru síðan Róbert Wessman stofnaði Alvotech sem hefur síðustu ár unnið að þróun átta líftæknihliðstæðulyfja. Róbert segir að afar vel hafi gengið að fá inn nýtt hlutafé og þó markaðir vestra séu í mikilli óvissu er hann bjartsýnn á gengi félagsins.
„Við munum svo bíða og sjá hvernig það mun ganga á næstu dögum og vikum,“ segir hann.
Félaginu gekk nokkuð vel í kauphöllinni vestra í dag.
Fyrirtækið hefur fengið markaðleyfi fyrir fyrsta líftæknihliðstæðulyf í Evrópu og Kanada, Humira, eftir dómsátt við annað lyfjafyrirtæki þar sem tekist var á um leyfismál og trúnaðarupplýsingar. Þá fær fyrirtækið að hefja sölu lyfsins í Bandaríkjunum á næsta ári.
„Það var gríðarlegur áfangasigur að ná dómssátt á þessum forsendum,“ segir hann.
Róbert á enn þá um 36% hlut í Alvotech sem er metið á um 630 milljarða króna, hlutur hans er því um 226 milljarða króna. Nokkuð hefur gustað um persónu Róberts í fjölmiðlum hér á landi undanfarin misseri. Hann segir að það hafi engin áhrif á setu sína sem stjórnarformaður fyrirtækisins.
„Ég mun halda áfram að styðja við félagið alla vega næstu árin,“ segir Róbert.