Umfjöllun og viðtöl: Valur-Leiknir 2-1 | Heima­menn fylgdu eftir góðum sigri í síðasta leik

Jón Már Ferro skrifar
Patrick Pedersen.
Patrick Pedersen. Vísir/Diego

Á Hlíðarenda mættust Valur og Leiknir í kvöld í 10. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í roki og rigningu. Leikurinn litaðist mikið af veðrinu sem gerði leikmönnum erfitt fyrir oft á tíðum. Heimamenn voru sáttari í leikslok og lánlausir Leiknismenn þurfa að sætti sig við enn eitt tapið.

Valsmenn höfðu betur í leiknum, 2-1, með mörkum frá Arnóri Smárasyni og Tryggva Hrafni. Mark Leiknis gerði Mikkel Dahl, það kom á 15.mínútu og reyndist eina mark gestanna í leiknum. 

Valsmenn svöruðu stuttu seinna og eftir frábæran undirbúning Birkis Más skoraði Arnór Smárason á 16.mínútu.Sigurmarkið kom svo á 65. mínútu en það gerði Tryggvi Hrafn eftir frábæra sókn Valsmanna. 

Öll mörk leiksins voru í flottari kantinum en þess utanvar leikurinn ekki mikið fyrir augað. Veðrið hafði sennilega áhrif á sóknarleik beggja liða í kvöld. Oftar en ekki runnu sóknirnar út í sandinn þegar rokið tók í boltann.

Bæði lið reyndu að nýta sér föst leikatriði, en varnarleikurinn var ofan á í þeim efnum. Til að mynda átti Guy Smith frábæra vörslu eftir aukaspyrnu Emil Berger, boltinn var við það að fara upp í vinkilinn þegar sá hollenski kom fljúgandi. 

Mark á þessum tímapunkti hefði sennilega sett mikla spennu fyrir síðustu 20.mínúturnar. Allt kom fyrir ekki og voru það heimamenn sem tóku öll stigin. Í lok leiks hefðu Valsmenn sennilega átt að fá vítaspyrnu þegar Hólmar Örn var rifinn niður þegar hann var við það að skalla boltann.

Af hverju vann Valur?

Leikmenn Vals sýndu gæði í mörkunum sem þeir skorðuðu og svo varði Guy Smith vel þegar Emil Berger tók stórhættulega aukaspyrnu.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Smárason lagði upp og skoraði, erfitt að horfa framhjá því. Annars voru sennilega flestir leikmenn vallarins sem hafa spilað betur. Sérstaklega sóknarlega.

Hvað gekk illa?

Liðunum gekk illa að klára margar af sóknum sínum. Oftar en ekki var það rokið sem greip í boltann með þeim afleiðingum að boltinn fór ekki þangað sem menn vildu.

Hvað gerist næst?

Næsta leik spila Valsmenn á Akureyri, gegn KA, þann 4.júlí. Leiknir fær Skagamenn í heimsókn.

Þjálfarar liðanna komu í viðtal eftir leik og voru eðlilega missáttir með úrslitin.

„Við byrjuðum sterkt, skoruðum vorum svo klaufar að láta þá jafna strax. Í fyrri hálfleik vorum við ekki alveg nógu beittir, vorum kannski með yfirhöndina. Svo áttum við þennan leik frá a-ö í seinni hálfleik. Þeir fá eitt móment sem við búum til fyrir þá og skilaði þeim sigrinum. Mér fannst við frábærir hérna í dag,“ sagði brattur Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, þrátt fyrir tapið.

Sigurður var sáttur með leikplanið og hvernig það virkaði.

„Já við ætluðum bara að mæta þeim og vera hátt á vellinum. Við vorum ekki alveg nógu nálægt þeim og þorðum ekki alveg að elta þá alveg þegar við settum pressu á þá og þeir náðu að spila inn í miðsvæðið. Í seinni hálfleik komust þeir ekki upp völlinn fannst mér í seinni hálfleiknum í nokkrum mómentum. Ég held að strákarnir hafi bara fylgt þessu leikplani mjög vel og ég held þetta hafi verið virkilega flottur leikur hjá okkur,“ sagði Sigurður Höskuldsson.

Sigurður vill ekki meina að það séu þyngsl yfir sínu liði.

„Nei nei þetta er ekkert þungt. Það er frábær orka í liðinu, frábær liðsheild, vorum frábærir í dag,“ sagði Sigurður Höskuldsson.

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.Vísir/Hulda Margrét

Heimir Guðjóns, þjálfari Vals, var að vonum sáttari eftir leik en gagnrýndi spilamennsku síns liðs sem hefur verið betri.

„Spiluðum gríðarlega góðan leik á móti Breiðablik í síðustu umferð. Hugarfarslega séð voru menn ennþá aðeins í skýjunum eftir þann leik. Byrjuðum ekki nógu vel, það skiptir ekki máli hvort þú sért að spila við Breiðablik eða Leikni eða hvaða lið sem er í deildinni, ef að hugarfarið er ekki til staðar þá lenduru alltaf í vanræðum,“ sagði Heimi Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir leik.

Valsmenn gefast ekki upp í von um titilbaráttu, þrátt fyrir að Breiðablik séu 8 stigum frá þeim á toppi deildarinnar.

„Jú að sjálfsögðu, við höldum bara áfram. Auðvitað skekkir það svolítið stöðumyndina í töflunni hvað Blikarnir eru búnir að vera gríðarlega góðir. Vinna nánast alla leikina sína,“ sagði Heimir.

„Hann er búinn að spila síðustu tvo leiki meiddur og gert það mjög vel. Hann hefur spilað mjög vel í allt sumar, vonandi verður hann betri eftir tvær vikur,“ sagði Heimir um Guy Smith, markmann Vals sem hefur verið að spila meiddur undanfarið.

Fleiri leikmenn Vals meiddust í leiknum. Aron Jó fór út af velli í fyrri hálfleik, Haukur Páll fór út af í hálfleik og Patrick Pedersen í seinni hálfleik eftir að hafa komið inn á fyrir Aron Jó.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira