Íris Guðnadóttir, einn landeigenda við Reynisfjöru, segir það hafa komið skýrt fram á fundinum í gær að það hafi komið skýrt fram að það væri vilji allra hlutaðeigandi að bæta öryggi í fjörunni.
„Ég var með stutt erindi og lagði áherslu á þá skoðun mína að aðgerðaleysi væri ekki valkostur, við þyrftum að koma okkur saman um aðgerðir. Það var vel tekið undir það,“ segir hún í samtali við Vísi.
Þá segir hún að landeigendur við Reynisfjöru beri ekki ábyrgð fólkinu sem sækir fjörunu en þeir beiri hins vegar ábyrgð á umhverfinu og náttúrunni og að gera aðkomu að fjörunni sem besta.
Það feli í sér að þeir þurfi að byggja upp innviði á svæðinu, koma upp bílastæðum, klósettum, lýsingu, merkingum, göngustígum, ruslatunnum og veita fræðslu.
Eðlilegt að rukkað verði fyrir þjónustu
Íris segir að landeigendur við Reynisfjöru hafi aldrei notið arðs eða hlunninda af gestum sem koma í Reynisfjöru, því sé eðlilegt að aðstöðugjald verði tekið fyrir innviðauppbyggingu.
Hún segir engar ákvarðanir hafa verið teknar á fundinum í gær sem snúa að tæknilegri útfærslu á uppbyggingu innviða eða hvernig hún verður fjármögnuð.
„En það sér það hver maður að við landeigendur erum ekki að fara að greiða úr eigin vasa,“ segir Írís.
Aðgerðir hefjast fyrir 30. september
Komist var að þeirri niðurstöðu í gær að tímasettri aðgerðaáætlun verði skilað til Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, fyrir 30. september. Íris segir þó að aðgerðir hefjist á allra næstu dögum.
Strax á föstudag verður haldinn fundur hlutaðeigandi þar sem farið verður yfir fyrstu skref. Auk innviðauppbyggingar vilja landeigendur að skoðað verði hvort gæslumenn geti verið á svæðinu þegar aðstæður eru sérlega viðsjárverðar.
Þannig vilja þeir að viðvörunarkerfi verði komið upp sem byggt verður á sjávarfallaspá Veðurstofu Íslands og upplýsingum úr myndavélum sem komið verður upp á svæðinu.