
Það var í hádeginu sem fjöldi fólks mætti á Ægisgarð til að fylgjast með upphafi hvalvertíðar eftir nærri fjögurra ára hlé á hvalveiðum. Byrjað var á því að losa landfestar Hvals 9 sem lá utan á Hval 8.
Upphafið reyndist þó vandræðalegt því dráttarbáturinn Leynir, sem Faxaflóahafnir sendu í það verkefni að draga bátana frá bryggju, reyndist of kraftlítill. Í vestangjólu, sem kom þvert á Hval 9, skorti dráttarbátinn afl til að draga hvalbátinn frá.

Þetta varð til þess að hann missti hvalbátinn frá sér og rak hann hratt í átt að Hval 8. Þar um borð voru menn snöggir til, sáu í hvað stefndi, og náðu að koma dekki á rekkverkið til að hindra skemmdir.
Hvalur 9 rakst einnig utan í skuttogarann Sigurborgu SH frá Grundarfirði, sem lá við Ægisgarð fyrir aftan hvalbátana.

Engar sjáanlegir skemmdir urðu á skipunum. Öflugri dráttarbátur var svo fenginn á vettvang, Haki, og náði hann að koma hvalbátunum frá bryggju svo þeir gætu siglt til hvalveiða.
Myndskeið af árekstrinum, sem og frá brottför skipanna, var sýnt í fréttum Stöðvar 2, og rætt við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals hf.
