Erlent

Vill að þingið leggi eldsneytisskatt til hliðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joe Biden vill að Bandaríkjaþing leggi eldsneytisskatt tímabundið til hliðar.
Joe Biden vill að Bandaríkjaþing leggi eldsneytisskatt tímabundið til hliðar. AP Photo/Evan Vucci

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fór fram á það í dag við Bandaríkjaþing, að það myndi samþykkja þriggja mánaða hlé á álagningu eldsneytisskatts.

Eldsneytisverð í Bandaríkjunum er, líkt og víða annars staðar, í hæstu hæðum.

Biden sagði fyrr í vikunni að hann væri að íhuga tillögu þess efnis. Tilgangurinn væri að aðstoða bandarísk heimili sem og að berjast gegn verðbólgu.

Ekki þykir víst að Bandaríkjaþing muni samþykkja að leggja eldsneytisskattinn tímabundið til hliðar, ekki síst vegna andstöðu ýmissa samflokksmanna Bidens á þingi við tillögunni. Biden getur ekki lagt skattinn tímabundið til hliðar, samþykki bandaríkjaþings þarf til þess.

Biden sagði í dag að bandarískir borgarar ættu skilið að fá að fá skjól frá hækkandi eldsneytisverði, sem Biden rakti meðal annars til stríðsins í Úkraínu.

Þeir þingmenn beggja flokka sem ekki eru vissir um gagnsemi þess að leggja skattinn til hliðar telja ekki ljóst hvort að ávinningurinn af því muni enda í vasa neytenda eða olíuframleiðenda og olíusala.

Bandaríska alríkisstjórnin tekur til sín 18,3 sent á hvert gallon af bensínu og 24,4 sent af hverju galloni af dísel sem Bandaríkjamenn dæla á bíla sína.

Á íslenskum mælikvarða eru það um 24 krónur á hvert gallon af bensínu og 29 krónur á hvert gallon af dísel. Eitt gallon er um 3,8 lítrar og því er skatturinn um sex krónur á hvern lítra af bensíni og um átta krónur á hvern lítra af dísel.

Eldsneytisverð er í hæstu hæðum í Bandaríkjunum, um fimm dollara á hvert gallon eða um 172 krónur á hvern lítra.

Biden hvatti einnig yfirvöld í ríkjum Bandaríkjanna til þess að leggja sértæka eldsneytisskatta sem eru í gildi í einstökum ríkjumm til hliðar tímabundið.

Þá segist Biden einnig ætla að hefja viðræður við bandaríska olíuframleiðendur um hvernig megi auka framboð á eldsneyti í Bandaríkjunum, meðal annars með því að athuga hvort sé að nýta á ný aflagðar olíuvinnslur.


Tengdar fréttir

Skoða að leggja eldsneytisskatt til hliðar

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og ráðgjafar hans liggja nú yfir því hvort ráðlegt sé að afnema tímabundið eldsneytisskatt til þess að berjast gegn hækkandi eldsneytisverði og verðbólgu í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×