Fótbolti

Af hverju er Sara númer 77?

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir með treyju Juventus og númerið 77.
Sara Björk Gunnarsdóttir með treyju Juventus og númerið 77. Juventus.com

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur nýtt ævintýri á Ítalíu eftir Evrópumótið í júlí þegar hún byrjar að æfa og svo spila með fimmföldum meisturum Juventus. Það mun hún gera í treyju númer 77.

Ítalía verður fimmta landið sem að Sara spilar í en hún hóf ferilinn með Haukum og svo Breiðabliki hér á landi áður en hún hóf að sanka að sér titlum í atvinnumennsku. Það gerði hún með Rosengård (sem áður hét Malmö) í Svíþjóð, Wolfsburg í Þýskalandi og nú síðast Lyon í Frakklandi.

En hvað kemur til að Sara verður í fyrsta sinn í treyju númer 77 þegar hún stígur á svið í Tórínó í haust?

„Ég hef alltaf viljað vera númer sjö, alveg frá því að ég var lítil. Það er uppáhalds talan mín. Ég hef verið í sjöunni í landsliðinu, og líka í Rosengård og Wolfsburg, en fékk hana ekki í Lyon,“ segir Sara en hún var í ítarlegu viðtali við Vísi í dag um vistaskiptin.

Sömu sögu er að segja í Juventus og hjá Lyon. Sjöan er upptekin því ítalska landsliðskonan Valentina Cernoia, einn af máttarstólpum liðsins síðustu ár, er númer sjö.

„Ég ákvað þess vegna núna að velja mér 77,“ segir Sara sem klæddist treyju númer átta bæði tímabil sín í Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×