Fótbolti

„Liðið verður tilbúið fyrir EM, það er alveg klárt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir byrjaði sinn fyrsta landsleik í tæpa 19 mánuði í gær.
Sara Björk Gunnarsdóttir byrjaði sinn fyrsta landsleik í tæpa 19 mánuði í gær. Vísir/Skjáskot

Sara Björk Gunnarsdóttir, leikjahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var að vonum ánægð með sigur liðsins gegn Pólverjum í lokaleik Íslands fyrir Evrópumeistaramótið. Hún segir að liðið hafi fundið taktinn í síðari hálfleik og að það sé klárt að íslensku stelpurnar verði klárar fyrir EM.

„Mér fannst þetta góður seinni hálfleikur. Við fundum ekki alveg taktinn í fyrri hálfleik,“ sagði Sara Björk eftir sigur íslenska liðsins í gær.

„Við vorum ekki alveg með pressuna á hreinu og svo er líka bara slæmt að fá á sig mark í lokin á fyrri hálfleiknum. En mér fannst við koma betur út í seinni hálfleik og pressan gekk betur. Við stigum ofar og þetta varð þægilegra. Við unnum boltann ofar og náum að skora þrjú mörk. Það er mikilvægast að fá góða tilfinningu í seinni hálfleiknum og hafa unnið leikinn og fara með þessa tilfinningu á EM.“

Sara var að byrja sinn fyrsta landsleik í rúmlega eitt og hálft ár, en þrátt fyrir það sagðist hún vera bara nokkuð brött eftir leikinn.

„Mér líður bara vel sko. En ég finn alveg að það eru 90 mínútur í kroppnum þannig að ég mun ná að hvíla mig og láta sjúkrateymið vel um mig. Vonandi næ ég endurheimt sem fyrst.“

Íslenska liðið heldur nú til Þýskalands til að leggja lokahönd á undirbúning liðsins fyrir EM. Sara segist spennt fyrir þessum dögum sem framundan eru.

„Mér líður ágætlega í Þýskalandi. Ég held að þeð sé allt í toppstandi í Þýskalandi, við erum búnar að vera hérna í Póllandi með góðan undirbúning og það var góður undirbúningur heima. Nú erum við með leik og við erum með sigur og svo höldum við bara áfram. Förum til Þýskalands og æfum vel og gerum okkur tilbúnar fyrir EM.“

„Liðið verður tilbúið fyrir EM, það er alveg klárt,“ sagði Sara að lokum.

Klippa: Sara Björk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×