Erlent

Trump hótaði Svíþjóð viðskiptastríði vegna rappara

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Dómsmálaráðherra Svía hefur greint frá því að árið 2019 hafi Donald Trump hótað landinu með viðskiptastríði og viðskiptaþvingunum vegna fangelsunar bandaríska rapparans A$AP Rocky.
Dómsmálaráðherra Svía hefur greint frá því að árið 2019 hafi Donald Trump hótað landinu með viðskiptastríði og viðskiptaþvingunum vegna fangelsunar bandaríska rapparans A$AP Rocky. EPA/Kamil Krzaczynski

Donald Trump hótaði Svíum viðskiptastríði vegna fangelsunar bandaríska rapparans A$AP Rocky árið 2019 segir Morgan Johansson, dómsmálaráðherra Svía, í viðtali við Dagens Nyheter.

Bandaríski rapparinn A$AP Rocky var handtekinn og ákærður fyrir líkamsárás árið 2019 eftir að myndband af honum að ráðast á aðdáenda úti á götu kom í ljós. Trump tjáði sig mikið um mál Rocky á samfélagsmiðlum og sagði opinberlega að Stefan Lofven, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, hafi valdið sér vonbrigðum.

Trump krafði Svía um frelsun A$AP Rocky.Skjáskot

„Veitið A$AP Rocky FRELSI,“ stóð í færslu Trumps á Twitter og þar stóð enn fremur „Við gerum svo mikið fyrir Svíþjóð en það virðist ekki ganga í báðar áttir. Svíþjóð ætti að einblína á sitt raunverulega glæpavandamál.“

A$AP Rocky var á endanum fundinn sekur og hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm.

Beitti Svía þrýstingi

Í viðtali við sænska dagblaðið Dagens Nyheter á þriðjudag sagði Morgan Johansson, dómsmálaráðherra Svía, að Trump hefði varað sænsku ríkisstjórnina við viðskiptaþvingunum ef A$AP Rocky yrði ekki veitt frelsi. 

Trump fagnaði heimkomu Rocky með orðagrínsfærslu á Twitter.Skjáskot

Að sögn Johansson hafi Trump einnig sagst vera búinn að óska eftir stuðningi framkvæmdastjórnar ESB.

„Þessi saga sýnir hve mikilvægt það er að standa með lagalegum meginreglum og taka lýðræðinu ekki sem gefnu,“ sagði sænski dómsmálaráðherrann.

„Ef þú getur reynt að gera eitthvað svona gegn Svíþjóð, hvað ætlarðu þá að reyna að gera við lönd sem eru veikbyggðari og hafa ekki Evrópusambandið á bak við sig.“


Tengdar fréttir

Trump ósáttur með aðgerðaleysi Löfven í máli A$AP Rocky

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, lýsti í dag yfir vonbrigðum sínum með aðgerðaleysi forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven í máli rapparans bandaríska A$AP Rocky sem situr í gæsluvarðhaldi í Svíþjóð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×