Margir íslenskir fjölmiðlar eru mættir til Crewe til að fylgjast með þessu spennandi íslenska liði og hluti af því að keppa meðal bestu knattspyrnuþjóða Evrópu er að gefa íslensku þjóðinni sýn inn í líf sitt á þessu risastóra sviði.
Stelpurnar munu því hitta fjölmiðlamenn reglulega á meðan mótinu stendur og leyfa þjóðinni að fylgjast enn betur með sér.
Þetta kallar auðvitað á meira áreiti og breytingu hjá stelpunum sem hafa nánast fengið að vera í friði síðustu rúmu vikuna. Nú eru þær hins vegar mættar þangað sem þær munu eyða næstu tveimur vikum og vonandi lengur ef vel gengið á EM.
Þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson hafði þetta örugglega í huga þegar hann valdi hvaða leikmenn liðsins mæta í viðtölin við fjölmiðlamennina í dag.
Liðið æfir þá á æfingasvæðinu hjá liði Crewe Alexandra en fyrir hana fá fjórir leikmenn það verkefni að ræða við fjölmiðla. Það vantar ekki íslenska fjölmiðlafólkið á svæðið og því verður nóg að gera hjá þessum leikmönnum fyrir æfingu í dag.
Þorsteinn treystir á reynsluna því hann sendir fjóra af reyndustu leikmönnum liðsins fram fyrir skjöldu.
Þetta eru markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir, varnarmennirnir Glódís Perla Viggósdóttir og Sif Atladóttir auk miðjumannsins Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.
Engin af þessum öflugu leikmönnum er að mæta á sitt fyrsta Evrópumót og þótt að umfangið og umstangið í kringum liðið hafi aldrei verið meira þá munar mikið um það.
Vísisfólk er að sjálfsögðu í þessum fjölmiðlahópi og fyrstu viðtöl ættu því að detta inn á Vísir í dag.