Innlent

Breyting á upp­­­gjörs­að­­ferð skýri stökk í fjölda and­láta

Árni Sæberg skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segir ekki rétt að fjöldi látinna af völdum Covid-19 hafi hækkað um 23 á milli vikna. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að upplýsingar á covid.is gefi ekki alveg rétta mynd. Á vefnum segir að 179 hafi látist vegna Covid-19 hér á landi, en þeir sem fylgjast grannt með vefnum vita að í síðustu viku var talan 153. Hann segir að svo mikil fjölgun skýrist einfaldlega að því að verklagi við uppgjör hafi verið verið breytt.

Nú er miðað við dánarvottorð en upplýsingar úr dánarvottorðum eru aðeins teknar saman einu sinni í mánuði. Sóttvarnaryfirvöld fái ekki lengur tilkynningar frá einstaka stofnunum um andlát af völdum Covid-19.

Ekki endilega andlát vegna Covid-19

Þórólfur segir að hafi fólk verið með Covid-19 mánuði fyrir andlát þá skráist það sem látið vegna sjúkdómsins. „Þannig að þetta eru Covid tengd andlát, þetta eru ekki endilega allt andlát vegna Covid þó Covid tengist því, geri kannski einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma veikari og svo framvegis,“ segir hann.

Þá segir Þórólfur að fylgst sé með fjölda andláta á landinu milli mánaða og ekkert bendi til þess að andlát séu fleiri um þessar mundir en voru fyrir tíma Covid-19. Andlátum hafi þó fjölgað milli ára í mars á þessu ári, sérstaklega hjá fólki sjötíu ára og eldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×