Enski boltinn

Fullyrða að félagið hafi vitað af ásökunum um nauðgun síðasta haust

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Knattspyrnumaður í Norður-Lundúnum er ásakaður um nauðgun.
Knattspyrnumaður í Norður-Lundúnum er ásakaður um nauðgun. Getty Images

Samkvæmt fréttamiðlinum The Guardian mun félag knattspyrnukappans sem var handtekinn vegna gruns um nauðgun hafa vitað af ásökunum síðasta haust. Félagið leyfði honum samt sem áður að spila með aðalliði þess á síðustu leiktíð.

Á mánudag bárust fréttir þess efnis frá Bretlandseyjum að 29 ára gamall knattspyrnumaður hefði verið handtekinn vegna gruns um nauðgun.Síðan hafa tvær konur til viðbótar bæst við og því um þrjár nauðgunarákærur að ræða.

Ekki má nefna leikmanninn vegna lagalegra ástæðna en hann er þekktur á heimsvísu, var líklegur til að spila fyrir þjóð sína á HM síðar á þessu ári og þá er félag hans staðsett í Norður-Lundúnum.

Leikmaðurinn var handtekinn á mánudag en sleppt gegn tryggingu degi síðar. Gildir sú trygging fram í ágúst en leikmaðurinn er í farbanni þangað til. 

Í frétt The Guardian segir leikmaðurinn hafi verið handtekinn vegna nauðgunar sem átti sér stað í júní á þessu ári. Er hann var í haldi lögreglu bættust við tvær ákærur vegna nauðgana sem áttu sér stað í apríl og júní á síðasta ári. Konurnar þrjár eru á bilinu 20 til 30 ára.

Samkvæmt heimildum The Guardian þá vissi vinnuveitandi leikmannsins, félag staðsett í Norður-Lundúnum, af meintum nauðgunum frá síðasta ári. Tók félagið þá ákvörðun að aðhafast ekkert í málinu og spilaði leikmaðurinn með liðinu á síðustu leiktíð.

Félagið neitaði að svara spurningum The Guardian er miðillinn hafði samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×