Í gær var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi í Grindavík. Síldarvinnslan kaupir allt hlutafé félagsins og greiðir fyrir það tuttugu milljarða. Þá greiðir fyrirtækið einnig vaxtaberandi skuldir Vísis sem nema um ellefu milljörðum.
Um 230 íbúar Grindavíkur starfa fyrir Vísi og stefnir Síldarvinnslan á að halda starfsemi Vísis áfram í Grindavík, að minnsta kosti næstu fimm árin. Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Ásrún Helga Kristinsdóttir, segist bera blendnar tilfinningar til kaupanna.
„Tilfinningarnar eru blendnar, breytingar geta verið óþægilegar. Vísisfjölskyldan er stór hluti af þessu samfélagi og ég trúi því að þau hafi haft hagsmuni bæjarfélagsins að leiðarljósi,“ sagði Ásrún í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hún segist treysta því sem fulltrúar Síldarvinnslunnar sögðu bæjarstjórn í morgun og segir gríðarlega hagsmuni vera í húfi.
„Hér er mikil sérstaða, við erum með góð mið og höfn sem er nálægt, við erum með hátækni bolfisksvinnsluhús, mikinn mannauð, reynslu og þekkingu. Það eru miklir hagsmunir í húfi.“