Fótbolti

Svekkjandi að ná alla vega ekki að skora úr einu horni af tíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Belgar bægja hættunni frá eftir horn íslenska liðsins en þarna má sjá báða miðverðina, þær Guðrúnu Arnardóttur og Glódísi Perlu Viggósdóttur.
Belgar bægja hættunni frá eftir horn íslenska liðsins en þarna má sjá báða miðverðina, þær Guðrúnu Arnardóttur og Glódísi Perlu Viggósdóttur. Vísir/Vilhelm

Ólafur Pétursson er ekki bara markmannsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta heldur hefur hann ábyrgðarmikið hlutverk þegar kemur að föstu leikatriðunum.

Íslenska liðinu tókst ekki að skora úr föstu leikatriði í leiknum á móti Belgíu og ekki heldur í eina æfingarleiknum á móti Póllandi.

Ólafur hitti fjölmiðlamenn fyrir æfingu liðsins og þar var gott tækifæri til að forvitnast aðeins betur um hans starf í liðinu.

„Ég sé um markverðina og daginn fyrir leik fer ég alltaf yfir föst leikatriði í vörn og sókn. Hvernig þær stilla upp og hverjar eru þeirra hættulegustu leikmenn. Hverjar við þurfum að passa og hverjar þeirra veikleikar eru í hornum. Við förum yfir það á fundi og við þjálfarateymið ákveðum síðan hvernig við viljum hafa hornin og þá sérstaklega sóknarlega,“ sagði Ólafur.

Þarf hann ekki að taka hornin betur fyrir á æfingunum fyrir Ítalíuleikinn?

„Það var svekkjandi að ná alla vega ekki að skora úr einu horni. Við fáum tíu hornspyrnur. Þetta er bara jafn leikur og Belgarnir eru líka sterkir í föstum leikatriðum. Þetta var bara skák þar. Vonandi setjum við þá bara tvö á móti Ítölunum,“ sagði Ólafur.

Það var enginn Belgi að fara að gleyma Dagnýju Brynjarsdóttur í hornum íslenska liðsins.

„Ég geri ráð fyrir því að þeir undirbúi sig eins og við. Við vitum alltaf hverjar sterkustu leikmennirnir eru. Við fengum tvo, þrjú ágætis horn í gær sem hefðu með heppni getað farið inn. Það er stutt á milli í þessu,“ sagði Ólafur.

Dagný Brynjarsdóttir gnæfir yfir aðra leikmenn í einu af hornunum tíu á móti Belgíu.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×