Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins, sagði frá því á blaðamannafundi i dag að Telma Ívarsdóttir, markvörður úr Breiðabliki, hafi meiðst á æfingu fyrr um daginn.
Cecilia Rán Rúnarsdóttir verður ekkert með íslenska liðinu á mótinu eftir að hafa puttabrotnað tveimur dögum fyrir fyrsta leik. Í stað hennar kom Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving inn í hópinn.
Það lítur út fyrir að þetta sé hættulegasta staðan í íslenska hópnum því allir útileikmenn liðsins eru heilir og klárir í leikinn á móti Ítalíu á morgun.
Þorsteinn sagði frá því á fundinum að Telma hefði farið myndatöku eftir æfinguna en hann hafði ekkert frétt meira af því þar sem hann var bæði á leiðinni til Manchester sem og hann var upptekinn í viðtölum við blaðamenn.
Þorsteinn mun frétta meira af meiðslum Telmu á eftir og þá kemur í ljós hvort hann þurfi að gera aðra breytingu á markmannshópi íslenska liðsins á þessu Evrópumóti.