Enski boltinn

Segir að samkomulag um De Jong sé í höfn en leikmaðurinn vilji ekki fara

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sagan endalausa um Frenkie de Jong heldur áfram.
Sagan endalausa um Frenkie de Jong heldur áfram. Steve Christo - Corbis/Corbis via Getty Images

Félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir frá því á Twitter-síðu sinni að Manchester United og Barcelona hafi komist að samkomulagi um kaupverðið á miðjumanninum Frenkie de Jong. Enn eigi þó eftir að ganga frá samningum við leikmanninn sem vill halda kyrru fyrir hjá Börsungum.

Sagan endalausa um hollenska miðjumanninn heldur áfram. United hefur verið á höttunum eftir leikmanninum frá því að félagsskiptaglugginn opnaði fyrir rúmum mánuði síðan, en síðan þá hafa ófáir kaflarnir verið ritaðir í þessa framhaldssögu.

Raunar er þetta ekki í fyrsta skipti sem sagt er frá því að félögin hafi náð samkomulagi um kaupverð á leikmanninum. Í lok maí var sagt frá því hér á Vísi að leikmaðurinn hafi hafnað félagsskiptunum, en svipað er uppi á teningnum nú.

Nú segir Romano frá því að félögin tvö séu búin að ná samkomulagi um kaupverð á leikmanninum. Hann segir frá því að United borgi 75 milljónir evra fyrir miðjumanninn og að tíu milljónir gætu bæst við í gegnum árangurstengdar bónusgreiðslur.

Hins vegar virðist ganga erfiðlega fyrir United að sannfæra leikmanninn sjálfan um að flytja sig til Englands. Illa gengur að semja við De Jong sem sjálfur vill halda kyrru fyrir hjá spænska stórveldinu.

Því verður að teljast líklegt að sögunni um félagsskipti De Jong til Manchester United sé ekki lokið og að enn eigi eftir að rita nokkrar blaðsíður og jafnvel kafla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×