Fótbolti

Karó­lína Lea: „Ég hef alltaf vitað að ég sé góð í fót­bolta“

Árni Jóhansson skrifar
Karólína stóð í ströngu á mörgum vígstöðum á móti Frökkum
Karólína stóð í ströngu á mörgum vígstöðum á móti Frökkum Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti fína spretti á móti Frakklandi, eins og á öllu mótinu, en þarf að jafna sig á svekkelsinu að detta út eftir jafnteflið fyrr í kvöld.

„Auðvitað er það mjög súrt að við höfum ekki farið áfram. Mér fannst það skilið. Við vorum inn í öllum leikjunum, skorum þrjú góð mörk og fáum ekki nema þrjú á okkur á móti þessum stóru þjóðum“, sagði Karólína þegar hún var spurð út í hvernig hún liti á stöðuna eftir leik.

Hún var því næst spurð hvort það þyrfti ekki bara að jafna sig á þessu svo það væri hægt að fara að vera stolt af frammistöðunni og þeirri staðreynd að liðið hafi farið í gegnum mótið taplaust..

„Algjörlega. Fremst í huganum er bara þakklæti fyrir alla þessa geggjuðu stuðningsmenn sem mættu hérna í þessum brjálaða hita. Það var eiginlega ótrúlegt.“

Aðstæður voru erfiðar vegna hitans og Karólína var spurð að því hvort það hafi ekki verið að fara að taka á að spila leikinn.

„Jú en við reyndum bara að vera jákvæðar og gefa hvor annarri jákvæða orku allan leikinn. Það er ekkert smá gaman að vera í svona bardaga.“

Það var náttúrlega mikið áfall að fá á sig mark á fyrstu mínútunni en svo voru tvö mörk tekin af Frökkum eftir myndbandsdómgæslu. Karólína var spurð út í tilfinningarnar sem fóru í gegnum huga hennar þegar allt þetta fór fram.

„Ég var bara alveg í sjokki. Ég get alveg viðurkennt það. Ég sá ekki allt sem fór fram en ég trúði því alltaf að við gætum allavega jafnað leikinn. Það gekk eftir en það var bara ekki nóg eftir.“

Karólína var að spila á sínu fyrsta stórmóti og var spurð að því hvað hún tæki með sér inn í framtíðina og hvernig var að spila fyrir þjálfarann.

„Ég tek bara reynsluna. Ég fékk mikið traust á þessu móti. Eins og ég segi þá er framtíðin björt hjá okkur. Það er æðislegt að spila fyrir hann og ég mun alltaf reyna að gera allt sem ég get fyrir hann.“

Að lokum var Karólína spurð út í það hvort hún hafi orðið vör við umræðuna um landsliðið og frammistöðu hennar á samfélagsmiðlunum.

„Já og nei. Ég hef alltaf vitað að ég sé góð í fótbolta.“

Klippa: Karólína Lea eftir leik

Tengdar fréttir

Ein­kunnir: Margar sem spiluðu vel en Gló­dís Perla bar af

Það var allan tímann ljóst að það yrði á brattann að sækja fyrir íslensku stelpurnar í kvöld gegn gríðarsterku liði Frakklands. Til að gera brekkuna töluvert brattari þá skoruðu Frakkar fyrsta mark leiksins strax áður en fyrsta mínúta leiksins var liðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×