Fótbolti

Skaut Marokkó í úrslit Afríkumótsins í fyrsta skipti án þess að vita það

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rosella Ayane reyndist hetja Marokkó í undanúrslitum Afríkumótsins í gær.
Rosella Ayane reyndist hetja Marokkó í undanúrslitum Afríkumótsins í gær. Twitter/@CAF_Online

Marokkó er á leið í úrslitaleik Afríkumóts kvenna í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögunni eftir sigur gegn Nígeríu í vítaspyrnukeppni í gær. Hetja liðsins virtist þó ekki átta sig á því að hún hafði tryggt liðinu sigur.

Rosella Ayane er nafn sem líklega fæstir Íslendingar kannast við. Hún reyndist þó hetja Marokkó þegar liðið mætti Nígeríu í undanúrslitum Afríkómóts kvenna í knattspyrnu í gær.

Leikur Marokkó og Nígeríu bauð upp á allt sem góður knattspyrnuleikur þarf að bera. Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni, tvö rauð spjöld litu dagsins ljós og leikið var fyrir framan metfjölda áhorfenda, en tæplega 46 þúsund áhorfendur voru mættir á völlinn.

Nígeríska liðið tók forystu í leiknum snemma í síðari hálfleik áður en Uchenna Kanu, framherji liðsins lét reka sig af velli með beint rautt spjald eftir um klukkutíma leik.

Marokkósku stelpurnar nýttu sér liðsmuninn og jöfnuðu metin fáeinum mínútum síðar. Þrátt fyrir að spila tveimur mönnum fleiri seinustu tuttugu mínútur leiksins eftir að Rasheedat Ajibade lét reka sig af velli í liði Nígeríu tókst Marokkó ekki að tryggja sér sigur í venjulegum leiktíma.

Ekki tókst það heldur í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Fór það svo að nígersíska liðið klikkaði á einni spyrnu, en það marokkóska skoraði úr öllum sínum fimm spyrnum. Áðurnefnd Rosella Ayane tók seinustu spyrnu Marokkó og tryggði liðinu sigur, og þar með sæti í úrslitum. Ayane virtist þó ekki hafa hugmynd um það að hennar spyrna hafi ráðið úrslitum og tók það hana nokkrar langar sekúndur að átta sig á því hvað hefði gerst. Myndband af þessu skondna atviki má sjá í Twitter-færslunni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×