Um­fjöllun og viðtöl: KR - Fram 1-1 | Allir svekktir með jafn­tefli í Vestur­bænum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var ekki mikil gleði í andlitum leikmanna KR er flautað var til leiksloka í kvöld.
Það var ekki mikil gleði í andlitum leikmanna KR er flautað var til leiksloka í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

KR og Fram skildu jöfn með einu marki gegnu einu þegar liðin mættust í lokaleik 13. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í kvöld. Segja má að hvorugt lið fari sátt að sofa eftir leik kvöldsins. Liðin voru í 7. og 8. sæti deildarinnar fyrir leik, eitthvað sem Fram hefði mögulega tekið á þessum tíma fyrir mót en það er ljóst að KR-ingar verða seint sáttir með að vera í neðri helming deildarinnar. Það var því ljóst að ekkert nema þrjú stig kæmu til greina.

Eftir vægast sagt rólega byrjun þá opnaðist leikurinn aðeins er gestirnir tóku frumkvæðið. Eftir það skiptust liðin á höggum en Fram fékk þó betri færin framan af fyrri hálfleik. Það vakti athygli undirritaðs að bæði lið stilltu upp í 4-4-2 leikkerfi, allavega er þau vörðust.

Það verður seint sagt að fyrri hálfleikurinn fari í sögubækurnar fyrir skemmtun en hann einkenndist af mikilli stöðubaráttu. Fram varðist mjög aftarlega og KR gekk illa að finna glufur á skipulagðri vörn gestanna. Fyrst reyndu þeir glórulaus langskot áður en reynt var að lyfta boltanum í svæðin milli miðvarða og bakvarða. Þegar það brást var reynt að gefa fyrir úr öllum mögulegum stöðum.

Á sama tíma voru skyndisóknir Fram ekki nægilega bitmiklar til að valda KR miklum vandræðum þó svo að liðið hafi fengið 1-2 góð skotfæri eftir slíkar sóknir. Það besta átti Indriði Áki Þorláksson á 19. mínútu en skot hans fór yfir markið.

KR virtist með ágætis tök á leiknum en það stefndi allt í að leikurinn yrði markalaus er flautað væri til loka fyrri hálfleiks. Það er þangað til Guðmundur Magnússon fékk boltann 20-25 metrum frá marki heimaliðsins. 

Guðmundur hefur raðað inn mörkum í sumar og lét því vaða að marki. Skot hans var fast og gat Beitir Ólafsson, markvörður KR, aðeins varið boltann út í teig þar sem Magnús Þórðarson var einn á auðum sjó og renndi boltanum í netið. Staðan orðin 0-1 og nokkrum sekúndum síðar var flautað til hálfleiks.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik sem breytit leiknum strax í upphafi síðari hálfleiks. Ægir Jarl Jónasson kom inn af bekknum og var búinn að jafna metin eftir aðeins tveggja mínútna leik. Hann skallaði þá fína hornspyrnu Atla Sigurjónssonar í netið en Ægir Jarl var ískyggilega einn og yfirgefinn inn á teig gestanna í markinu.

Ægir Jarl jafnaði metin.Vísir/Diego

Það var töluvert meira líf í síðari hálfleik en þeim fyrri. KR-ingar voru að vissu marki betri út á velli en það var aðallega því Fram lagðist í skotgrafirnar þegar þess þurfti og leyfði heimamönnum að vera með boltann. Það voru hins vegar gestirnir sem fengu betri færin þökk sé vel útfærðum skyndisóknum.

Markaskorarinn Magnús átti til að mynda þrumuskot sem Beitir varði vel í horn og þá átti Tiago Manuel Da Silva Fernandes einnig lúmska tilraun. Það var hins vegar KR sem sótti og sótti eftir því sem leið á hálfleikinn. 

Rúnar hélt áfram að bæta við sóknarþenkjandi mönnum en KR náði ekki að ógna marki Ólafs Íshólms og segja má að markvörður Fram hafi átt nokkuð náðugan dag. Allavega ef miðað er við fyrri leik liðanna í sumar. 

Á endanum fór það svo að leiknum lauk með 1-1 jafntefli. KR-ingar eru ósáttir þar sem liðið getur ekki unnið heimaleik. Síðasti sigurinn á Meistaravöllum kom þann 16. maí síðastliðinn. Þá voru Framarar ósáttir þar sem liðið hefði getað unnið deildarsigur í Vesturbænum í fyrsta sinn síðan árið 2000.

Hvað gerist næst?

KR mætir öðrum fornum fjendum í næstu umferð en Valur heimsækir Meistaravelli þann 25. júlí næstkomandi. Sama dag fer Fram í heimsókn á Akranes og mætir ÍA.

„Kannski jafntefli ekkert ósanngjörn niðurstaða“

Jón Sveinsson, þjálfari Fram.Vísir/Diego

„Pínu vonbrigði að hafa ekki klárað þetta og taka þrjú stig. Þetta var hörkuleikur og kannski jafntefli ekkert ósanngjörn niðurstaða,“ sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram eftir leik.

„Við erum með fullt af góðum knattspyrnumönnum sem geta spilað fótbolta þegar þeir eru með boltann. Maður hefur ekki áhyggjur af því, við höfum þétt okkur aðeins og erum að spila betri varnarleik sem lið þannig það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur.“

„Held það sé engin ástæða til að horfa upp töfluna. Við erum að vinna í okkar málum og ætlum að gera upp mótið í september þegar 22 umferðir eru búnar og þá sjáum við til hvar við stöndum.“


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira