Erlent

Snúa baki við Draghi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Draghi á þinginu í dag.
Draghi á þinginu í dag. Associated Press/Gregorio Borgia

Búist er við því að forsætisráðherra Ítalíu, Mario Draghi segi af sér nú á næstunni. Þetta er í kjölfar þess að Draghi missti stuðning þriggja flokka í stjórnarsamstarfi sínu en flokkarnir þrír tóku ekki þátt í kosningu um traustsyfirlýsingu við áform Draghi í dag.

Í síðustu viku var kosið um frumvarp sem hefði eyrnamerkt 26 milljarða Evra til þess að draga úr framfærslukostnaði fyrir ítölsku þjóðina. Draghi setti kosningu frumvarpsins upp sem traustsyfirlýsingu og hlaut frumvarpið nægan stuðning en Fimm stjörnu hreyfingin sniðgekk kosninguna.

Í kjölfar frumvarpskosningarinnar ræddi Draghi stöðu sína við forseta Ítalíu, Sergio Mattarella. Draghi bauðst til þess að falla frá embætti en Mattarella hafnaði því.

Nú hafa fleiri stjórnarflokkar bæst við í lið Fimm stjörnu hreyfingarinnar en fyrir kosninguna í dag sagði Draghi örlög stjórnar sinnar standa og falla með því hvort hægt væri að byggja upp traust á ný.

Draghi hefur lagt áherslu á einingu innan stjórnarinnar til þess að hægt sé að takast á við vandamálin sem bíða. Sem dæmi má nefna umbætur sem þurfi að ganga í gegn eigi Ítalía að fá næsta hluta stuðningspakka vegna kórónuveirufaraldursins sem nemur í heild sinni 200 milljörðum evra. Guardian greinir frá þessu.

Eftir kosninguna heldur Draghi þó enn meirihluta en búist er við því að hann segi af sér þrátt fyrir að hann njóti mikils stuðnings frá almenningi. Segi Draghi af sér verður þetta þriðja ríkisstjórn Ítalíu sem springur á jafn mörgum árum en talið er líklegt að Ítalir gangi þá til kosninga í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×