Skoðun

Fyrir­tækin sýna á­byrgð í lofts­lags­málum

Halldór Benjamín Þorbergsson skrifar

Í viðtali á Stöð2 sem endurbirt er á Vísi segir svokallaður loftslagssérfræðingur ASÍ að fyrirtækin í landinu geri lítið til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og takist því ekki á við loftslagsvandann.

Þetta er fjarri öllum sannleika.

Ekki getur verið átt við fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa endurnýjað fiskiskipin í stórum stíl undanfarin ár, hagrætt mikið og dregið þar með úr allri losun.

Ekki getur þetta átt við fyrirtæki í orkugeiranum sem hafa unnið mikið starf að draga úr losun og þróað aðferðir til að binda kolefni í jarðlögum sem geta skilað ótrúlegum árangri á komandi árum.

Þetta á heldur ekki við fyrirtæki í stóriðju sem falla undir viðskiptakerfi með losunarheimildir sem gerir alla losun stöðugt dýrari og hefur hvatt þau til að vera í fremstu röð á sínu sviði.

Þetta á heldur ekki við fyrirtæki sem stunda loftferðir sem hafa endurnýjað flugflota sinn með stöðugt minni eldsneytisnotkun. Né á þetta við um skipafélögin sem hafa endurnýjað farkosti sína til að minnka losun og auka hagræðingu.

Almenn fyrirtæki sýna ábyrgð, halda losunarbókhald og leita leiða til að draga úr kolefnisspori sínu. Þau styðja við skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.

Enginn vafi er að unnt er að ná meiri árangri við orkuskipti en til þess þarf að virkja og ryðja burt hindrunum sem tefja allar framkvæmdir á þessu sviði.

Innihaldslaust þvaður af þessum toga er Alþýðusambandi Íslands til lítils sóma.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×