Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og byggt er á bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Fram kemur í tilkynningunni að aukninguna megi líklega að stærstum hluta rekja til loðnu, enda hafi orðið talsverð aukning á útflutningsverðmæti í þeim vinnsluflokkum þar sem loðnan er fyrirferðarmikil.

Mikil aukning hafi verið í útflutningi á fiskimjöli og lýsi í júní. Verðmæti þess samanlagt á fyrri árshelmingi sé þrefalt meira á föstu gengi en á sama tíma í fyrra. Það megi rekja til þess að loðnukvótinn í ár hafi verið margfalt stærri en í fyrra og hafi því hlutfallslega meira af kvótanum farið í bræðslu.

Þá segir í tilkynningunni að á fyrstu sex mánuðum ársins nemi útflutningsverðmæti sjávarafurði 170 milljörðum króna. Það sé um 18 prósenta aukning frá sama tímabili í fyrra, mælt í erlendri mynt. Heilt yfir sé því ágætis gangur í sjávarútvegi en af þeim vinnsluflokkum sem birtir eru í bráðabirgðatölum Hagstofunnar sé einungis samdráttur í heilfrystum fiski.

Mikil aukning hafi þá verið í útflutningi sjávarafurða til Noregs. Það megi aftur rekja til loðnukvótans í ár og hversu stór hluti hans fór í bræðslu. Noregur hafi verið langstærsta viðskiptaland Íslands fyrir mjöl og lýsi í gegn um tíðina og endi það sem fer til Noregs í fiskeldisfóðri. Samkvæmt mánaðartölum Hagstofunnar, sem nái aftur til ársins 2002, hafi útflutningur til Noregss á fyrstu fimm mánuðum ársins aldrei verið meiri, sama hvort litið sé til verðmætis eða magns.