Fótbolti

Heimakonur sigurstranglegastar en þær sænsku ólíklegastar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Georgia Stanway skaut Englendingum í undanúrslit.
Georgia Stanway skaut Englendingum í undanúrslit. Maddie Meyer - UEFA/UEFA via Getty Images

Undanúrslit Evrópumóts kvenna hefjast á morgun og líkt og á öðrum stigum keppninnar hafa hinar ýmsu tölfræðiveitur reiknað út sigurmöguleika hverrar þjóðar fyrir sig.

Það er tölfræðiveitan Gracenote sem tekur sigurlíkur liðanna saman sem vitnað er í hér. Eins og áður eru heimakonur í enska landsliðinu taldar líklegastar til að fagna sigri á mótinu. Talið er að 29 prósent líkur séu á sigri heimakvenna.

Lengst af var sænska liðið talið eiga næst mesta sigurmöguleika, en þær sænsku eru nú hins vegar taldar ólíklegastar til að taka bikarinn með sér heim. Sænska liðið er talið eiga 22 prósent sigurlíkur, en ástæða þess að sænska liðið er talið ólíklegast til árangurs er líklega sú að liðið mætir Englendingum í undanúrslitum á morgun.

Talið er að 58 prósent líkur séu á því að Englendingar fari í úrslitaleikinn, en 42 prósent líkur á því að þær sænsku slái þeim við.

Hinn undanúrslitaleikurinn er viðureign Frakka og Þjóðverja á miðvikudaginn. Ekki er hægt að segja að tölfræðiveitan hafi jafn mikla trú á ójöfnum leik og í viðureign Englendinga og Svía. Talið er að Frakkar eigi 51 prósent líkur á því að komast í úrslit og að líkurnar á því að Þjóðverjar fari í úrslit séu 49 prósent.

Þá gefur Gracenote Frökkum 25 prósent líkur á sigri á mótinu, en Þjóðverjum 24 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×