Gavia Invest gekk frá kaupum á öllu hlutafé Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra Sýnar, í félaginu yfir helgina en hann átti stærstan einstakan hlut í félaginu, 12,72 prósent. Í gær bætti félagið svo enn við sig hlutum í Sýn og á nú ríflega 43,1 milljón hluta eða 16,08 prósent alls hlutafjár í félaginu.
Í tilkynningu til Kauphallar segir að nú hafi Gavia farið fram á að stjórn Sýnar boði til hluthafafundar og að þar verði ný stjórn kjörin.
Jón Skaftason sem fer fyrir Gavia Invest, sem stofnað var sérstaklega utan um kaupin á Sýn, segir að eigendur þess muni hafa virka aðkomu að rekstri Sýnar.
Ljóst er að með 16,08 prósent atkvæða á hluthafafundi getur Gavia haft töluverð áhrif á samsetningu nýrrar stjórnar Sýnar og þar með hver eftirmaður Heiðars í forstjórastólnum verður.
Vísir er í eigu Sýnar hf.