J. Alexander Kueng var dæmdur í þriggja ára fangelsi og Tou Thao í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa brotið á réttindum Georges Floyd þann 25. maí 2020. Þeir voru í hópi lögreglumannanna sem handtóku Floyd fyrir að selja sígarettur á götuhorni, sem endaði á því að lögreglumaðurinn Derek Chauvin banaði Floyd eftir að hafa kropið á hálsi hans í meira en níu mínútur, þrátt fyrir kvalavein Floyds. Vegfarandi náði atvikinu á myndband, sem fór á flug um netið og varð kveikjan að mótmælaöldu um allan heim.
Kueng var sá sem kraup á baki Floyds, Thao hélt aftur af vegfarendum sem reyndu að koma Floyd til bjargar og fjórði lögreglumaðurinn, Thomas Lane, hélt fótum Floyds kjurrum. Lane var dæmdur í síðustu viku í tveggja ára fangelsi, sem er eins og dómarnir yfir Kueng og Thao undir viðmiðum. Chauvin var fyrir nokkru síðan dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir að hafa banað Floyd.
Nánasta fjölskylda Floyds var ekki viðstödd dómsuppsögu í gær og hefur ekki tjáð sig um dómana yfir Kueng og Thao. Philonise, bróðir Floyds sagði hins vegar eftir að dómurinn yfir Lane var kveðinn upp að hann væri móðgun við minningu Georgs.
Courteney Ross, kærasta Floyds, var viðstödd dómsuppsögu beggja mannanna í gær og sagði eftir að dómur hafði verið kveðinn upp að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum, sérstaklega með dóminn yfir Thao.
„Dómurinn rímaði að mínu mati ekki við glæpinn. Ég vildi fá hæstu refsingu,“ sagði Ross.
Málaferlum Thao og Kueng er hins vegar ekki lokið en aðalmeðferð hefst í máli gegn þeim í lok október þar sem þeir eru ákærðir fyrir samverknað í annars stigs morði og annars stigs manndrápi. Lane hefur játað samverknað í annars stigs manndrápi og bíður þess að dómur verði kveðinn upp yfir honum vegna þess.
Samkvæmt alríkisviðmiðum, sem dómarar í máli lögreglumannanna fylgdu ekki, hefði átt að dæma Kueng í fjögurra til fimm ára fangelsi og Thao í fimm til sex og hálfs árs fangelsi. Saksóknarar sóttust eftir þyngri dómi í máli beggja.