Fótbolti

Domino's endurnefnir stað í höfuð landsliðskonu og fyrrum starfsmanns

Valur Páll Eiríksson skrifar
Domino's í Leeds ber nú heitið Lucy's til heiðurs fyrrum starfsmanninum Lucy Bronze.
Domino's í Leeds ber nú heitið Lucy's til heiðurs fyrrum starfsmanninum Lucy Bronze. JOE

Englendingar eru í skýjunum vegna góðs árangurs kvennalandsliðs þeirra á Evrópumóti kvenna í fótbolta sem fer fram á Englandi. Lucy Bronze hlaut sérstakan heiður frá Domino's.

Hægri bakvörðurinn Bronze hefur verið á meðal þeirra allra bestu í heiminum í sinni stöðu en hún samdi nýlega við Barcelona þar sem hún mun leika á næstu leiktíð. Áður spilaði hún meðal annars fyrir Liverpool, Manchester City og Lyon.

Hún lék einnig fyrir Everton á árunum 2010 til 2012 en samhliða því sinnti hún námi við Leeds-háskóla í íþróttafræðum. Þá vann hún einnig sem pítsubakari á Domino's stað í Leeds.

Unnið var að skiltaskiptum í vikunni.JOE

Domino's hefur tekið upp á því að endurnefna þann stað, sem ber nú heitið Lucy's í stað Domino's. Að auki munu pítsusendlar á staðnum, sem keyra um á vespum, bera bronslitaða hjálma í stað hvítra til heiðurs Bronze og allar konur sem bera nefnið Lucy munu geta sótt fría pítsu á staðinn á sunnudag, daginn sem úrslitaleikurinn fer fram.

England mætir Þýskalandi í úrslitum EM á sunnudagskvöld og vonast eftir sínum fyrsta stóra titli í sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×