Verðbólga hefur aukist víðs vegar í heiminum þar sem stríðið í Úkraínu og áhrif kórónuveirufaraldursins hafa spilað hlutverk.

Á Norðurlöndunum, í Evrópusambandsríkjum, Bretlandi, og Bandaríkjunum var verðbólgan allt að tíu prósent í júnímánuði. Á Íslandi mældist verðbólgan síðan 9,9 prósent í júlí og jókst um 1,1 prósentustig frá því í júní.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, bendir á að verðbólgan hér á landi sé að mörgu leiti heimatilbúin og að ítrekað hafi verið varað við stöðu mála.

„Núna hafa launþegasamtök en líka samtök atvinnulífsins verið að benda á að með þessu aðhaldsleysi í ríkisfjármálum þá sé verið að velta vandanum yfir á næstu ríkisstjórnir og jafnvel næstu kynslóðir, þannig það er mjög mikið áhyggjuefni hversu seint ríkisstjórnin hefur verið að bregðast við,“ segir Þorgerður.
Stjórnvöld séu að senda heimilum landsins, og þá sérstaklega viðkvæmustu hópunum, kaldar kveðjur með stórfelldum vaxtarhækkunum.
„Þess vegna verðum við að fara í sértækar aðgerðir fyrir viðkvæmustu hópana, fyrir unga fólkið, fyrir það fólk sem er búið að festa kaup á fyrstu íbúð, fyrir lágtekjuhópana. Það verður mjög erfitt að fara í einhverjar almennar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnar eins og staðan er núna á ríkissjóði,“ segir Þorgerður.
Þurfi mikinn aga til að ná verðbólgunni niður
Hvað aðila vinnumarkaðarins varðar segir hún ekki mögulegt að semja um meiri launahækkanir en hagkerfið standi undir. „Það myndu allir tapa ef það yrði gert, og þetta yrði þá bara einhver vitleysa sem við værum komin inn í,“ segir hún.
Þannig beri verkalýðshreyfingin og samtök atvinnulífsins mikla ábyrgð fyrir kjaraviðræður í haust. Hið sama megi segja um ríkisstjórnina.
„Hún þarf að svona bretta upp ermar og átta sig á að alvaran er mjög mikil, ekki síst út af ákveðnum mistökum sem að þau hafa gert á sviði efnahagsmála,“ segir Þorgerður.
Greiningaraðilar reikna með að verðbólgan nái hámarki í næsta mánuði en fari síðan hægt niður á við. Mikil óvissa er þó til staðar.
„Ég vil meina að þetta sé gerlegt, það er hægt að ná verðbólgunni niður, en það þýðir að það þarf mikinn aga af hálfu allra sem að koma að kjaraviðræðum, ekki bara aðila vinnumarkaðarins heldur líka af hálfu ríkisstjórnarinnar,“ segir Þorgerður.