Á þeim sex tímum sem hafa liðið frá skjálftanum hafa alls sextán skjálftar að stærð 3,0 eða meira riðið yfir á svæðinu. Þar af var einn sem var 4,3 að stærð og átti sér stað um 4,3 kílómetra norðnorðvestur af Grindavík klukkan 20:44.
Almannvörnum bárust fjöldi tilkynninga um tjón í Grindavík eftir skjálftann sem reið yfir fyrir sex. Meðal annars rofnaði kaldavatnslögn í, fjöldi glasa og diska brotnuðu á veitingastað og matvörur hrundu úr hillum verslana.
Samkvæmt Veðurstofunni bárust tilkynningar um að skjálftinn stóri hafi fundist austur í Fljótshlíð og vestur á Snæfellsnes. Þá kemur fram á Facebook-síðu Veðurstofunnar að skjálftinn sé svokallaður gikkskjálfti, sem verði vegna spennubreytinga sem kvikuinnskotið við Fagradalsfjall veldur.
Grindvíkingar segjast finna minna fyrir núverandi jarðskjálftahrinu en þeirri sem reið yfir fyrir ári síðan áður en gaus. Þá sagði Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur, við fréttastofu að bæjaryfirvöld væru tilbúin með viðbragðsáætlanir ef þurfi að rýma bæinn.