Fótbolti

Evrópumeistarinn útskýrði af hverju hún var alltaf að kyssa armbandið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarina Wiegman hefur unnið alla tólf leiki sem hún hefur stýrt liði á Evrópumeistaramóti kvenna í fótbolta og gerr bæði Holland og England að Evrópumeisturum.
Sarina Wiegman hefur unnið alla tólf leiki sem hún hefur stýrt liði á Evrópumeistaramóti kvenna í fótbolta og gerr bæði Holland og England að Evrópumeisturum. Getty/Robbie Jay Barratt

Sarinu Wiegman tókst það um Verslunarmannahelgina sem engum enskum landsliðsþjálfara hafði tekist í 56 ár. Hún gerði enskt landslið að meisturum.

Enska landsliðið varð Evrópumeistari með því að vinna 2-1 sigur á Þýskalandi í úrslitaleik. Þýska kvennalandsliðið hafði aldrei áður tapað úrslitaleik á EM.

Hin 52 ára gamli Hollendingur er þar með búin að vinna tvö Evrópumót í röð með tveimur mismunandi þjóðum því Holland varð Evrópumeistari undir hennar stjórn fyrir fimm árum.

Það fór ekkert fram hjá neinum í fagnaðarlátunum eftir leik að Sarina var ítrekað að kyssa armbandið sitt og hún útskýrði það á blaðamannafundi eftir leikinn.

Sarina var þar að þakka systur sinni fyrir hjálpina en systir hennar lést á meðan undirbúningnum stóð fyrir þetta Evrópumót. Sarina tileinkaði henni sigurinn.

„Ég kyssti litla armbandið mitt en það átti systir mín sem lést í aðdraganda mótsins,“ sagði Sarina Wiegman.

„Ég saknaði hennar en ég trúi því að hún hafi verið með okkur. Ég trúi því að hún hafi setið á markslánni,“ sagði Sarina.

„Hún hefði alltaf verið hér og hún hefði verið stolt af mér. Ég er stolt af henni líka,“ sagði Sarina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×