Íslenski boltinn

Beðið í fimmtán daga eftir að fá fyrsta markið sitt í Bestu deildinni skráð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarar fagna marki í sumar.
Framarar fagna marki í sumar. Vísir/Diego

19. júlí síðastliðinn gerðu KR og Fram 1-1 jafntefli í Bestu deild karla. Fram komst í 1-0 rétt fyrir hálfleik en KR-ingar jöfnuðu í byrjun seinni hálfleiks.

Mark Fram skoraði Magnús Þórðarson og var þetta hans fyrsta mark í efstu deild. Vandamálið er að dómari leiksins skráði ekki markið á hann. Reyndar skráði hann ekki markið á neinn. Það gufaði upp þegar dómarateymið gekk frá leikskýrslunni.

Mark KR, sem Ægir Jarl Jónasson skoraði er skráð á 48. mínútu en mark Framara kemur hvergi fram á leikskýrslu fyrir utan að úrslitin eru rétt skráð.

Leikskýrslan eins og hún lítur út fimmtán dögum eftir að leiknum lauk.KSÍ

Á leikskýrslunni stendur „Tímasetning atburða liggur ekki fyrir“ sem er væntanlega villumelding frá kerfinu af því að það vantar að skrá mark Fram.

Nú fimmtán dögum eftir að leikurinn fór fram á KR-vellinum hefur skýrslan enn ekki verið lagfærð.

Magnús er búinn að bíða svo lengi að hann er búinn að skora annað mark á meðan hann er að bíða eftir því að fá þetta mark skráð. Hann skoraði eitt marka Framliðsins í 4-0 sigri á ÍA upp á Skaga og það mark fékk hann skráð á sig.

Það hefur verið allt of mikið um óvönduð vinnubrögð hjá dómurum við leikskýrsluskrif í sumar og þetta er enn eitt dæmið um það.

Magnús Þórðarson.S2 Sport



Fleiri fréttir

Sjá meira


×