Mikið hefur gengið á í gasmálum í Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu en snemma í júlí ákváðu kanadísk yfirvöld að skila túrbínunni til Þýskalands en hún var í viðgerð í Kanada. Túrbínan flýtir streymi á rússnesku gasi í gegnum Nord Stream 1 leiðsluna.
Volodómír Zelenskí Úkraínuforseti hefur sakað Rússa um að standa í gas-stríði við Evrópu og að endurteknar lokanir á Nord Stream leiðslunni séu hugsaðar til þess að hræða Evrópubúa og draga úr andstöðunni við stríðið í Úkraínu. Yfirvöld í Úkraínu mótmæltu skilum túrbínunnar til Þýskalands á grundvelli þess að þau myndu gera lítið úr refsiaðgerðum gagnvart Rússlandi.
Rússnesk yfirvöld hafa notað viðgerðir á túrbínunni til þess að réttlæta skert flæði á gasi í gegnum leiðsluna en Evrópusambandið segir það ekki standast skoðun.
Samkvæmt umfjöllun Reuters kemur fram í boði frá Siemens Energy vegna heimsóknarinnar að túrbínan sé „tilbúin fyrir flutninga til Rússlands.“