Fótbolti

„Erum fíflin sem borgum launin til að senda þá út um allar koppagrundir til að spila fyrir aðra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Forseti Napoli, Aurelio De Laurentiis, liggur sjaldnast á skoðunum sínum.
Forseti Napoli, Aurelio De Laurentiis, liggur sjaldnast á skoðunum sínum. getty/NAPOLI

Aurelio De Laurentiis, hinn umdeildi forseti Napoli, er hættur að kaupa afríska leikmenn nema þeir uppfylli eitt skilyrði.

Í janúar á þessu ári spiluðu tveir leikmenn Napoli á Afríkumótinu, Senegalinn Kalidou Koulibaly og Kamerúninn André-Frank Zambo Anguissa, og misstu þar með af mikilvægum leikjum í toppbaráttu ítölsku úrvalsdeildarinnar.

De Laurentiis hafði lítinn húmor fyrir því og nennir ekki að lenda aftur í því að missa leikmenn á miðju tímabili. Hann hefur því ákveðið að kaupa ekki fleiri afríska leikmenn nema þeir samþykki að spila ekki á Afríkumótinu.

„Ég sagði þeim að tala ekki lengur við mig um afrísku strákana! Ég elska þá en þeir verða að skrifa undir eitthvað þar sem þeir samþykkja að spila ekki á Afríkumótinu,“ sagði De Laurentiis við Wall Street Italia.

„Við erum fíflin sem borgum launin aðeins til að senda þá út um allar koppagrundir til að spila fyrir aðra.“

De Laurentiis er einnig orðinn pirraður á því að suður-amerískir leikmenn séu fjarverandi vegna leikja í undankeppni HM og opinberaði þá óánægju sína í viðtalinu.

Napoli endaði í 3. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×