Viðskipti innlent

Frosta­skjól selur fé­lagi Rann­veigar og Hilmars allt sitt í Sýn

Árni Sæberg skrifar
Rannveig Eir Einarsdóttir og Hilmar Þór Kristinsson eiga helmingshlut í Frostaskjóli í gegnum félag sitt Reir ehf.
Rannveig Eir Einarsdóttir og Hilmar Þór Kristinsson eiga helmingshlut í Frostaskjóli í gegnum félag sitt Reir ehf. Aðsend

Frostaskjól ehf. hefur selt Fasta ehf. 3,35 prósent hlut sinn í Sýn auk 4,35 prósent hluta sem félagið átti í framvirkum samningum. Fasti er í eigu helmingseigenda Frostaskjóls en Róbert Wessmann á hinn helminginn.

Í morgun fóru fram ein viðskipti í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu Sýn með tæplega 20,7 milljónir hluta eða 7,7 prósent af heildarhlutafé félagsins. Kaupverðið var 1,3 milljarðar króna.

Rétt í þessu bárust Kauphöll tvær flagganir. Annars vegar vegna þess að Frostaskjól ehf. seldi 7.458.826 hluti í Sýn og 11.664.174 hluti í framvirkum samningum og hins vegar vegna þess að Fasti ehf. keypti alla hluti Frostaskjóls.

Eigendur Frostaskjóls eru til helminga Reir ehf. og Flóki invest. Eigendur Reir eru Rannveig Eir Einarsdóttir og Hilmar Þór Kristinsson. Flóki invest er í eigu Róberts Wessmann.

Eigendur Fasta ehf. eru þau Rannveig Eir og Hilmar Þór, að því er segir í frétt Viðskiptablaðsins.

Fasti ehf. hét áður BBL 199 ehf. en nýja félagið er ekki að finna í fyrirtækjaskrá. Skráður fyrirsvarsmaður BBL 199 ehf. er Elísabet Ingunn Einarsdóttir, framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar BBA//Fjeldco.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×